Innlent

Óli Björn segir Covid-aðgerðir hafa gengið of langt

Jakob Bjarnar skrifar
Óli Björn var formaður efnahags- og viðskiptanefndar á Covid-tímum. Hann telur að fara þurfi fram risauppgjör vegna aðgerða yfirvalda vegna sóttarinnar.
Óli Björn var formaður efnahags- og viðskiptanefndar á Covid-tímum. Hann telur að fara þurfi fram risauppgjör vegna aðgerða yfirvalda vegna sóttarinnar. vísir/vilhelm

Óli Björn Kárason, fyrrum þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er gestur Frosta Logasonar í viðtalsþætti hans Spjallinu og telur að það verði að fara fram risauppgjör við aðgerðir yfirvalda á Covid-tímum.

Óli Björn sat þegar þetta var sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, en þar um voru allar aðgerðir dregnar. Hann segist stoltur af því sem gert var en viti jafnframt að það eigi eftir að fara fram uppgjör – risauppgjör – við það hvernig brugðist var við. Hann telur hafa verið gengið of langt.

„Það þarf að fara í gegnum það á hvaða lagalega grunni var byggt þegar gripið var til aðgerða til að takmarka athafnafrelsi fyrirtækja, einstaklinga og mannleg samskipti. og þá er ég ekki að tala um kostnaðinn.“

Óli Björn segir það vissulega svo að hann hafi stutt aðgerðir sem farið var í og frumskylda stjórnvalda sé að vernda líf borgara og heilsu þeirra.

„En eftir á að hyggja gengu margar aðgerðir alltof langt og ég dreg í efa að það hafi verið lagalegur grunnur fyrir öllum þeim aðgerðum sem gripið var til. Svo geta menn velt því fyrir sér, virkaði stjórnarskráin eða ekki?“ sagði Óli Björn sem telur að uppgjör verði að eiga sér stað, annars lærum við ekkert.

„Ef að við þurfum að ganga aftur í gegnum einhvern svona faraldur, sem mér er sagt að sé ekkert ótrúlegt, en ég vona að verði aldrei, þá vona ég minnsta kosti að við munum eftir því sem við gengum í gegnum. Að við munum eftir því að við ákváðum að loka skólum. Jafnvel þegar við vissum að börnum stæði ekki nein, eða mjög takmörkuð hætta af þessari veiru. Að við munum að við sögðum við gamalt fólk; „Nei þú mátt ekki á síðustu dögum þínum eiga samskipti við þína nánustu“. Við gengum alveg ótrúlega langt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×