Fótbolti

Rúnar Alex ekki misst trúna úti þrátt fyrir krefjandi tíma

Aron Guðmundsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta og leikmaður Cardiff City
Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta og leikmaður Cardiff City Vísir

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta, segir stefnu liðsins vera að sækja sex stig úr komandi tveimur heimaleikjum liðsins í undankeppni EM 2024. Rúnar Alex kemur inn í verkefnið með fáar mínútur á bakinu á yfirstandandi tímabili hjá sínu félagsliði, Cardiff City. 

Ísland tekur á móti Lúxemborg á Laugardalsvelli á morgun í undankeppni EM 2024. Þá kemur Liechtenstein í heimsókn á mánudaginn næstkomandi. 

Rúnar Alex, landsliðsmarkvörður Íslands, er um þessar mundir á láni hjá Cardiff City sem spilar í ensku B-deildinni frá enska úrvalsdeildarfélaginu Arsenal. 

Tækifærin fyrir Rúnar hjá B-deildar liðinu hafa verið af skornum skammt upp á síðkastið en lífið utan vallar gengur smurt.  

„Það er mjög gott að búa þarna. Fjölskyldan er rosalega ánægð og það var mjög auðvelt að flytja þangað frá London. Ég væri til í að vera búinn að spila meira en það kemur vonandi.“

Það tekur á fyrir markmenn að fá ekki spiltíma og eru tækifærin fyrir þá af skornari skammti heldur en útileikmenn.

„Það er gríðarlega erfitt en það eru margir leikir í ensku B-deildinni sem og bikarleikir. Þannig ég mun alltaf fá mína leiki. Ég hef trú á því að ég muni fá að spila fyrr en síðar.“

Viðtalið við Rúnar Alex í heild sinni, þar sem að hann ræðir meðal annars komandi landsleiki, má sjá í heild sinni hér fyrir neðan: 

Klippa: Rúnar hefur ekki misst trúna þrátt fyrir krefjandi tíma



Fleiri fréttir

Sjá meira


×