Innlent

„Þá verður farið ofan í saumana á þessu“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að málið verði skoðað.
Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að málið verði skoðað. Samsett mynd

Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir mál 19 ára manns vegna aðgerða lögreglu á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í sumar ekki komið á borð til sín enn sem komið er. Hann eigi þó von á að það berist til sín á næstunni. 

Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær en þar lýsti maðurinn aðgerðum lögreglunnar í Eyjum og sagði húðlit sinn hafa ráðið aðgerðum lögreglu. Maðurinn hafi verið að skemmta sér í tjaldi á hátíðinni þegar lögreglumaður hafi tekið hann hálstaki, þvingað hendur hans fyrir aftan bak og dregið hann út þar sem framin hafi verið líkamsleit en ekkert fundist. 

Karl Gauti segist kannast við málið enda hafi lögmaður mannsins leitað til þeirra „Við skoðuðum þetta þá og við könnumst við kvörtunina. Strákurinn kom hérna á stöðuna en við fundum enga handtöku á þennan mann,“ segir Karl Gauti. 

Í bréfi lögmanns mannsins kemur fram að svo virðist sem lögregla líti svo á að maðurinn hafi ekki verið handtekinn. „Við að sjálfsögðu munum skoða þetta mál,“ segir Karl Gauti og bætir við að upptökur úr myndavélum verði skoðaðar. 

Málið sé litið alvarlegum augum ef rétt reynist enda verði að skrá niður allar handtökur samkvæmt verklagi.

Maðurinn var í hópi vina, sem allir eru hvítir, þegar lögreglan réðist í aðgerðir. Lögreglan hafði ekki afskipti af öðrum en manninum. 

„Ég mátti ekkert segja. Mér var bara sagt að þegja og ekki segja neitt. Ég vildi fá að hringja í pabba og þeir bönnuðu mér það. Ég fann fyrir því ógeðslega mikið þeir voru bara að láta eins og ég væri glæpamaður. Sem ég er ekki og þetta var ótrúlega óþægilegt hvernig þeir fóru með mig,“ sagði maðurinn meðal annars í gær. 

Hann hafi rætt við lögregluna eftir atvikið og fengið þær skýringar að hann hafi verið tekinn vegna klæðaburðar. Síðan hafi komið í ljós að sá grunaði hafi einnig verið dökkur. 

Karl Gauti segir að málið verði skoðað og rannsakað um leið og það kemur á hans borð. „Þá verður farið ofan í saumana á þessu.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×