Fótbolti

Fótboltanum á Suðurlandi sópað út af stóra sviðinu eftir svart sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðin af Suðurlandi voru ísköld á þessu fótboltasumri og átta þeirra féllu niður um deild.
Liðin af Suðurlandi voru ísköld á þessu fótboltasumri og átta þeirra féllu niður um deild. Vísir/Anton

Knattspyrnumenn Suðurlands munu flestir ekki minnast sumarsins 2023 með hlýju enda gengi bestu liða landshlutans skelfilegt.

Karlalið ÍBV kórónaði hörmulegt fótboltasumar á Suðurlandi með því að falla úr Bestu deild karla um helgina.

Það þýðir að Suðurland mun ekki eiga eitt einasta lið í Bestu deildunum á næsta ári.

ÍBV féll líka úr Bestu deild kvenna og þar fóru Selfosskonur einnig niður í Lengjudeildina.

Karlalið ÍBV vann bara 6 af 27 leikjum sínum og kvennalið félagsins vann bara 6 af 21 leik sínum. Selfossliðið vann aðeins 3 af 21 leik.

Svo slæmt var sumarið að Suðurlandsliðin í Lengjudeild karla, Selfoss og Ægir, féllu líka í sumar. Selfoss vann 7 af 22 leikjum en Ægir vann aðeins 2 leiki.

Lið af Suðurlandinu unnu því aðeins 30 af 140 leikjum sínum í efstu tveimur deildum karla og kvenna sumarið 2023 og markatalan er 139 mörk í mínus (154-293). Tapleikirnir eru aftur á móti 86 talsins eða 61 prósent leikja liðanna í ár.

Þetta var meira svo slæmt að Sindri, eina liðið á Suðausturlandi féll líka en úr 2. deildinni. Við getum haldið áfram. Lið KFS úr Vestmannaeyjum féll líka úr 3. deildinni og Uppsveitir (Árnessýslu) féllu úr 4. deildinni.

Árborg og Hamar náðu heldur ekki að komast upp úr 4. deildinni. Árborg var einu stigi frá því en Hamarsmenn enduðu bara í sjöunda sæti deildarinnar. KFR tókst heldur ekki að komast upp úr 5. deildinni en komst þó í úrslitakeppnina.

Sindrakonur enduðu líka í næstnesta sæti í 2. deildinni og Hamarskonur voru ekki með.

Í heildina féllu átta lið af Suðurlandi í sumar og ekkert þeirra tókst að komast upp um deild.

Það eina jákvæða við þetta sumar er að það ætti að vera auðvelt að gera miklu betur á sumrinu 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×