Innlent

Svan­dís sé ó­sátt en Ás­laug sér ekki eftir neinu

Oddur Ævar Gunnarsson og Helena Rós Sturludóttir skrifa
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Vísir/Vilhelm

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir há­­skóla-, iðnaðar- og ný­­sköpunar­ráð­herra sér ekki eftir ræðu sinni á Degi Sjávar­­út­vegsins þar sem hún skaut á sam­ráð­herra sinn Svan­­dísi Svavars­dóttur. Hún segist búin að ræða við sam­ráð­herra sinn sem hafi ekki verið sátt. Ræðan hafi fjallað um nýsköpun.

Eins og Vísir greindi frá í gær á­­varpaði Ás­laug Arna stjórn­endur í sjávar­­út­vegi í fyrra­­dag í Hörpu. Þar hélt hún ræðu um ný­­sköpun en sagði fyrst að það væri freistandi að ræða mál­efni líðandi stundar og sagði Svan­­dísi Svavars­dóttur vera sam­­nefnara reglu­­verka og eftir­­lits á meðan mynd af henni var varpað upp á vegg.

Svan­­dís Svavars­dóttir mat­væla­ráð­herra hafnaði við­tali við frétta­­stofu vegna málsins í morgun. Hún sagði Ás­laugar að svara fyrir fram­komu sína. Frétta­­stofa ræddi við Ás­laugu að loknum ríkis­­stjórnar­fundi.

Hvað áttirðu við á þessum fundi?

„Ég ein­fald­­lega var þarna á degi sjávar­­út­vegsins þar sem ný­­sköpun var sett á dag­­skrá en ég veit að það er mikil eftir­­­spurn eftir því að ræða mál sem hafa verið í deiglunni og ég sagði það ein­fald­­lega að ég ætlaði ekki að ræða þau mál heldur ein­beita mér að mennta­­kerfinu og ný­­sköpuninni sem mér finnst fá of lítið vægi og þar blasa við ýmsar á­skoranir sem ég tel mikil­­vægt að við ræðum frekar og setti það þess vegna á dag­­skrá.“

Finnst þér eðli­­legt að setja það upp á þann hátt sem þú gerðir?

„Mynd­­birtingin skapaði kannski ein­hver hug­hrif sem ekki var ætlunin að gera. Ég svaraði þessu þannig, ég taldi þarna upp mál sem eru mikið í um­­ræðunni og heyra undir annan ráð­herra en ég sagði það líka beint út við hópinn í staðinn fyrir að fara með það í ein­hverjar aðrar leiðir að ég ætlaði ekki að ræða þessi mál.“

Ummæli Áslaugar vöktu mikla athygli og voru meðal annars gagnrýnd af þingmönnunum Oddnýju Harðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmanni Viðreisnar. „Æ hvað þetta er eitthvað aumt að nýta tækifærið með fullan sal af útgerðarmönnum að sparka í Svandísi, gefa í skyn að hún standi nú með þeim sama hvað Svandís sé að bralla,“ sagði Oddný meðal annars.

Nú hafa um­­­mæli þín verið harð­­lega gagn­rýnd af þing­­mönnum og öðrum, finnst þér þetta rétt­­mæt gagn­rýni?

„Mér finnst hafa verið gert of mikið úr þessu og ef að ræðan er skoðuð í sam­hengi og á hana er hlustað í heild sinni þá blasir við önnur mynd en upp­­lifun fólks af þessum orðum.“

Ás­laug segir öllum mega vera ljóst að hana og Svan­­dísi greini á hug­­mynda­­fræði­­lega. Þær væru enda í ó­­líkum flokkum og reynt hafi á ýmis­­legt í ríkis­­stjórnars­­sam­­starfinu.

„Það eru engar fréttir í því að við séum ó­­­sam­­mála um ýmis mál. Það sem ég var að gera er að benda á að það séu ýmis mál sem brenna á at­vinnu­lífinu en heyra ekki undir mig og ég ætlaði að beina sjónum mínum að mínum mála­­flokkum sem heyra undir mig.“

Orða­lagið, nafn­­birtingin, hefðirðu getað gert þetta öðru­­vísi?

„Það er alltaf hægt að gera betur.“

Sérðu eftir þessu?

„Nei, ég var þarna með ræðu sem snerist um mennta­­kerfið og af hverju við ættum að beina sjónum okkar að því og sagði frá því að ég ætlaði ekki að beina sjónum mínum að þeim málum sem hefðu verið mikið í um­­ræðunni og heyra undir annan ráð­herra. Annað sagði ég ekki um þau mál eða tók af­­stöðu til þeirra.“

Hefurðu rætt við Svan­­dísi eftir þetta?

„Já.“

Hvað fór fram ykkar á milli?

„Hún er eðli málsins ekki sátt. Enda hafa þessi mál verið mikið í um­­ræðu og ég skil bara þau sjónar­mið,“ segir Ás­laug.

„Ég held að við áttum okkur alveg á því að við séum ó­­­sam­­mála um ýmis mál og þegar horft er á ræðuna í heild sinni að þá sést um hvað ég var að tala, en ekki það sem er kannski tekið út úr henni í ein­s­taka fréttum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×