Innlent

Á­kváðu að kæra eftir að bent var á fleiri mynd­skeið

Árni Sæberg skrifar
Ruppert verður kærður fyrir jarðrask á slóðanum.
Ruppert verður kærður fyrir jarðrask á slóðanum. Skjáskot

Umhverfisstofnun mun skila kæru til Lögreglunnar á Suðurlandi vegna utanvegaaksturs Þjóðverjans Petes Ruppert í fyrramálið.

Þetta segir Daní­el Freyr Jóns­son, svæðis­sér­fræðing­ur hjá Um­hverf­is­stofn­un, í sam­tali við Vísi. Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, sagði í Reykjavík síðdegis í dag að málið væri komið inn á borð stofnunarinnar og að til skoðunar væri að kæra athæfi Þjóðverjans.

Daní­el Freyr segir að í dag hafi borist fjöldi ábendinga um önnur myndskeið sem sýni greinilega utanvegaasktur Rupperts, en í myndskeiðinu sem hefur mest verið fjallað um ekur hann á slóða. Hann verður þó kærður fyrir ólöglegt jarðrask á slóðanum, með því að hafa grafið holu til að losa jeppann.

Utanvegaaksturinn sem sést á nýju myndskeiði var á friðlýstu svæði milli Hnífár og Blautuhvíslar í Þjórsárverum. Daníel Freyr kveðst ekki geta flokkað hann sem stórkostlegan utanvegaakstur, en hann sé þó ólögmætur.

Nú sé málið komið í hendur Lögreglunnar á Suðurlandi, sem muni rannsaka málið eins og hvert annað sakamál. Hann segist ekki búa yfir upplýsingum um það hvort Ruppert sé enn hér á landi. „Ef hann er farinn þá segir það sig sjálft að það flækir málið. En það er lögreglunnar að komast að.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.