Erlent

Tísku­mógúll sakaður um skipu­lagt kyn­ferðis­of­beldi

Árni Sæberg skrifar
Mike Jeffries, fyrir miðju, hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi.
Mike Jeffries, fyrir miðju, hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi. Patrick McMullan/getty

Mike Jeffries, fyrrverandi forstjóri tískurisans Abercrombie & Fitch, hefur verið sakaður um að hafa haldið regluleg kynsvöll þar sem ungir menn voru misnotaðir kynferðislega.

Niðurstöður áralangrar rannsóknar breska ríkisútvarpsins benda til þess að Jeffries og Matthew Smith, sambýlismaður hans til áratuga, hafi um árabil notað skipulagt net millimanna og einhvers konar hausaveiðara til þess að lokka unga menn í kynsvöll. 

BBC ræddi við átta menn sem tóku þátt í svöllunum, ýmist einu sinni eða oftar, og sumir þeirra lýstu því að þeim fyndist þeir hafa verið beittir kynferðisofbeldi.

Hvorugur mannanna hefur orðið við beiðni BBC um viðbrögð við málinu. James Jacobson, sem allir mennirnir sögðu að hefði átt þá í að fá þá í svöllin, sagði hins vegar í yfirlýsingu að allir mennirnir hefðu mætt viljugir og að engri nauðung hefði verið beitt.

Hefur lengi verið umdeildur

Þá hefur BBC rætt við tvo fyrrverandi saksóknara í Bandaríkjunum og lagt gögn málsins fyrir þá. Þeir segja báðir að tilefni sé til þess að rannsaka hvort mennirnir hafi gerst sekir um mansal, en ungu mennirnir segjast hafa fengið greitt fyrir að mæta í svöllin.

Jeffries tók við Abercrombie & Fitch snemma á tíunda áratug síðustu aldar og breytti merkinu, sem hafði um árabil verið rekið með tapi, í tískurisa sem velti milljörðum Bandaríkjadala á fyrsta áratug þessarar aldar. Hann lét af störfum árið 2014 eftir að hafa látið umdeild ummæli um fólk í yfirþyngd falla opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×