Innlent

Vill aðeins skoða kosti og galla útvistunar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ásdís segir ekkert hafa verið ákveðið varðandi útvistun á starfsemi Salarins.
Ásdís segir ekkert hafa verið ákveðið varðandi útvistun á starfsemi Salarins. Vísir

Ásdís Kristjánsdóttir segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um útvistun á starfsemi Salarins, tónleikasal bæjarins. Starfshópur muni eingis skoða kosti þess og galla að útvista starfseminni. 

Stjórn Klassís, fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, sem og Félag íslenskra hljómlistamanna (FÍH) hafa í yfirlýsingum lýst þungum áhyggjum af því að starfsemi tónlistarhússins verði boðin út. Ásdís bæjarstjóri segir hins vegar að félagið misskilji tillögur hennar sem unnar voru með hliðsjón af úttekt KPMG á menningarhúsum bæjarins.

Samkvæmt tillögum Ásdísar, sem gerðar voru í apríl á þessu ári, er lagt til að stofnaður verði starfshópur sem komi með tillögur til bæjarstjóra efla tónleikaviðburði og aðsókn. Meðal verkefna er að kortleggja kosti þess og galla við að útvista rekstri salarins. „Ef til útvistunar kæmi yrðu sett skilyrði um notkun og aðgengi Kópavogsbæjar að Salnum fyrir sína starfsemi,“ segir í tillögunni.

Í samtali við fréttastofu segir Ásdís að umræðan byggi á misskilningi.

„Stjórn Klassís dregur þá ályktun að starfseminni verði útvistað en það er alls ekki það sem hefur verið ákveðið.  Hins vegar ætlum við að skipa starfshóp til að kanna möguleikann á því hvernig við getum eflst enn frekar starfsemi Salarins. Eitt af því sem er nefnt er að skoða kosti þess og galla að útvista rekstrinum en það er ekkert sem bendir til þess að við ætlum að fara þessa leið, síður en svo,“ segir Ásdís.

„Þetta virðist hafa verið misskilningur hjá Klassís.“

Stefnan sé eingöngu að styrkja menningarstarfsemi bæjarins.

Tengist þetta hagræðingu í rekstri bæjarins?

„Nei, það eru engin áform um að hagræða í rekstri Salarins. Við viljum aðeins skipa starfshóp fagaðila til að kortleggja hvernig við getum eflt starfsemina enn frekar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×