Innlent

Segir ræstinga­konum sagt upp svo karlarnir geti grætt meira

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar hyggst boða konurnar sem missa vinnuna nú til fundar á þriðjudag.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar hyggst boða konurnar sem missa vinnuna nú til fundar á þriðjudag. Vísir/Vilhelm

Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, segir að hún muni gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að fá stjórn­endur Grundar­heimila til þess að hætta við á­kvörðun sína um að segja upp 33 starfs­mönnum í ræstingum og í þvotta­húsi.

Eins og Vísir greindi frá stefnir allt í að 33 starfs­menn verði sagt upp, þar með talið öllu starfs­fólki á Þvotta­húsi Grundar­heimilanna, sem eru átta talsins, þá verður ní­tján sagt upp í ræstinga­deild í Ási, hjúkrunar-og dvalar­heimili í Hvera­gerði og svo breytingar á sex störfum til við­bótar, ýmist með upp­sögnum eða þau lögð niður.

Sól­veig Anna sendi fé­lags­mönnum sínum hjá Ási og þvotta­húsinu tölvu­póst í dag þar sem hún til­kynnti þeim um upp­sagnirnar. Þeir höfðu ekki verið látnir vita fyrir­fram og lýsti starfs­maður því við Vísi að tölvu­pósturinn hefði valdið mikilli ó­reiðu.

„Við vorum látin vita af þessu vegna þess að þarna var um að ræða hóp­upp­sögn. Hollusta mín er náttúru­lega við fé­lags­fólk Eflingar, þegar ég fæ upp­lýsingar sem þessar lít ég á það sem skyldu mína að miðla þeim á­fram til míns fé­lags­fólks,“ segir Sól­veig Anna í sam­tali við Vísi.

Hún segir að hún hafi fyrir hönd Eflingar komið mót­mælum á fram­færi við Gísla Pál Páls­son, stjórnar­for­mann Grundar. Efling hvetji stjórn Grundar til að draga á­kvörðun sína til baka.

„Ég benti honum í sam­talinu jafn­framt á að kynna sér niður­stöður Vörðu um stöðu og lífs­skil­yrði fólks sem starfar við ræstingar sem birtust ein­mitt í dag. Þessar niður­stöður sýna fram á að staða þeirra sem starfa við ræstingar er sú versta á öllum ís­lenskum vinnu­markaði. Þetta eru að lang­stærstum meiri­hluta konur, mikið til inn­flytj­endur,“ segir Sól­veig Anna.

Konum fórnað á altari gróðans

Verið sé að segja upp ræstingar­konum og konum í þvotta­húsinu upp til þess að spara peninga. Sól­veig Anna býst við því að lítill sparnaður fáist með að­gerðunum.

„Þar sem þeir ráða þá ræstingar­konur í staðinn af al­mennum markaði þar sem launin eru lægri og réttindi miklu lakari, til þess að þeir karlar sem reki þau fyrir­tæki hafi þá tæki­færi til þess að græða enn meira,“ segir Sól­veig Anna.

„Það er ömur­legt að verða vitni að þessu og ömur­legt að hið opin­bera og fyrir­tæki í vel­ferðar­þjónustu skuli leiða þessa út­vistunar­þróun sem hefur verið í gangi.“

Sól­veig Anna hyggst vera við­stödd starfs­manna­fund sem haldinn verður í dag. Þá hyggst hún boða fé­lags­fólk sitt sem missir vinnu nú til fundar á þriðju­dag.

„Ég ætla að gera það sem í mínu og fé­lagsins valdi stendur til að fá stjórn Grundarhiemilanna til að draga þessa ömur­legu á­kvörðun til baka.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×