Arnór gekk í raðir Blackburn Rovers í sumar á láni frá rússneska félaginu CSKA Moskva en hann meiddist þó fljótlega eftir komu sína til Englands. Meiðsli sem höfðu, fyrir komandi helgi, haldið honum fjarri keppni á yfirstandandi tímabili.
„Tilfinningin var stórkostleg,“ sagði Arnór aðspurður hvernig hafi verið að leika sinn fyrsta mótsleik fyrir enska B-deildar liðið Blackburn Rovers. „Ég er stoltur af því að hafa spilað minn fyrsta leik og vil nýta tækifærið og þakka læknaliði Blackburn fyrir að koma mér í gegnum þetta meiðslatímabil.“
Arnór var í byrjunarliði Blackburn Rovers í leik liðsins gegn Ipswich Town á laugardaginn síðastliðinn og skoraði hann eitt marka liðsins í 4-3 tapi.
@arnorsigurdsson's debut #Rovers goal.
— Blackburn Rovers (@Rovers) September 24, 2023
pic.twitter.com/eLpUGML7aj
„Það hefur verið erfitt fyrir mig að koma inn sem nýr leikmaður í félagið en meiðast svo strax. En þó fylgdi því stórkostleg tilfinning að komast aftur inn á völlinn og skora mitt fyrsta mark fyrir félagið.“
Arnór hefur beðið lengi eftir þessari stundu.
„Að komast aftur inn á völlinn og spila minn fyrsta leik fyrir liðið. Ég hef verið að horfa á leiki Blackburn Rovers á Ewood Park og það fylgir því skrýtin tilfinning þegar að maður er meiddur og vill bara spila.
Þessi meiðsli voru þess eðlis að við þurftum að taka varfærnisleg skref í endurhæfingunni, taka okkur góðan tíma í þetta og það var það sem að við gerðum. Ég er spenntur fyrir framhaldinu. “
Blackburn er að ganga í gegnum erfiðan kafla þessi dægrin en þrátt fyrir að hafa skapað sér fullt af færum undanfarið hafa lærisveinar Jon Dahl Tomasson tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum í ensku B-deildinni.
„Þetta er erfiður kafli hjá liðinu núna. Við getum leyft okkur að vera vonsviknir en á morgun kemur nýr dagur og við verðum að einblína á jákvæði punktana í okkar leik,“ sagði Arnór Sigurðsson í viðtali við Rovers TV eftir sinn fyrsta mótsleik með liðinu.