Erlent

Ki­el­sen kemur nýr inn í græn­lensku lands­stjórnina

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Kielsen var formaður grænlensku landsstjórnarinnar á árunum 2014 til 2021. Hann beið lægri hlut gegn Erik Jensen í formannskosningum í Siumut árið 2020.
Kim Kielsen var formaður grænlensku landsstjórnarinnar á árunum 2014 til 2021. Hann beið lægri hlut gegn Erik Jensen í formannskosningum í Siumut árið 2020. EPA

Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, kynnti í dag breytingar á landsstjórninni. Einna hæst ber að Kim Kielsen, fyrrverandi formaður landsstjórnarinnar, tekur við embætti sjávarútvegs- og veiðimála og ráðherrum fjölgar um einn.

Grænlenski fjölmiðillinn Sermitsiaq.AG segir frá því að ráðherrum fjölgi um einn, fara úr níu í tíu, og mun sá sem bætist við vera með málefni stjórnarskrár og ríkismyndunar á sinni könnu.

Ákvörðun Egede um að hrista upp í ríkisstjórn sinni kemur í kjölfar frétta síðustu viku um afsögn sjávarútvegsráðherrans Karl Tobiassen sem sagði af sér þar sem hann sagði ekki hafa tekist að ná fram breytingum á fiskveiðikerfi landsins líkt og hann hafi heitið að gera fyrir kosningar.

Egede er leiðtogi flokksins Inuit Ataqatigiit (IA) sem vann mikinn sigur í grænlensku kosningunum 2021. IA myndaði þá stjórn með Naleraq, en sleit samstarfinu um ári síðar og myndaði þá nýja stjórn með flokknum Siumut.

Múte B. Egede er formaður grænlensku landsstjórnarinnar. Vísir/Vilhelm

Egede greindi jafnframt frá því á blaðamannafundi í morgun að samkomulag hafi náðst milli stjórnarflokkanna um viðauka við stjórnarsáttmálann, sem snýr að fjórum málaflokkum – heilbrigðismálum, breytingar á skattakerfinu, hráefnavinnslu og ríkismyndun.

Egede sagði að afstaða landsstjórnarinnar varðandi andstöðu við úranvinnslu sé óbreytt en að leita verði nýrra leiða og tækifæra til að nýta auðlindir landsins.

Egede (IA) verður áfram formaður landsstjórnarinnar og Erik Jensen, formaður Siumut, verður áfram fjármálaráðherra. Kielsen, sem var formaður landsstjórnarinnar á árunum 2014 til 2021 verður nýr ráðherra sjávarútvegs- og veiðimála.

Af tíu ráðherrum stjórnarinnar koma fimm úr röðum Siumut og fimm úr röðum IA.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.