Fótbolti

Markalaust í Íslendingaslagnum í Seríu-B

Siggeir Ævarsson skrifar
Birkir Bjarnason í leik með Brescia fyrr á tímabilinu
Birkir Bjarnason í leik með Brescia fyrr á tímabilinu Getty/Jonathan Moscrop

Boðið var upp á sannkallaðan Íslendingaslag í ítölsku Seríu-B deildinni í dag en því miður fyrir áhorfendur var einnig boðið upp á markalaust jafntefli.

Birkir Bjarnason og félagar í Brescia tóku á móti Venezia en þeir Mikael Ellertsson og Bjarki Steinn Bjarkason eru í hópi Venezia. Birkir og Mikael voru báðir í byrjunarliðum sinna liða og Bjarki kom inn á á 67. mínútu.

Bæði lið gerðu heiðarlegar tilraunir til að taka öll þrjú stigin en gestirnir frá Feneyjum náðu þó aldrei að koma boltanum á rammann þrátt fyrir 15 tilraunir. Það var hart tekist á og sex gul spjöld fóru á loft og þar af fékk Paolo Vanoli, þjálfari Venezia, eitt þeirra fyrir mótmæli.

Eftir leikinn í dag situr Venezia í 2. sæti deildarinnar með tólf stig eftir sex leiki en topplið Parma er með 13 stig og á leik til góða. Parma hefur ekki enn tapað leik í deildinni og er með markatöluna 11-1. 

Parma tekur á móti Sampdoria á morgun sem situr í 16. sæti deildarinnar með tvö stig þrátt fyrir að hafa unnið einn leik og gert einn jafntefli, en liðið hóf leik í haust með tvö stig í mínus þar sem liðið lenti í miklum fjárhagskröggum og gat á tímabili ekki borgað leikmönnum sínum laun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×