Fótbolti

Mun halda í­þrótta­þvætti áfram ef það eykur lands­fram­leiðsluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Krúnuprinsinn Mohammed bin Salman (t.h.) hefur ekki miklar áhyggjur af tali um íþróttaþvætti.
Krúnuprinsinn Mohammed bin Salman (t.h.) hefur ekki miklar áhyggjur af tali um íþróttaþvætti. Amin Mohammad Jamali/Getty Images

Mohamed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, segir að honum sé alveg nákvæmlega sama um ásakanir á hendur ríkinu um íþróttaþvætti.

Sádi-arabíska ríkið hefur verið sakað um að fjárfesta í íþróttaliðum og -viðburðum og nota það til að bæta ímynd sína á alþjóðavísu.

Sádi-arabíski fjárfestingasjóðurinn PIF hefur til að mynda lagt gríðarlegt fjármagn í knattspyrnulið í landinu og keypt hverja stórstjörnuna á fætur annarri. Þá keypti sjóðurinn einnig enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle ásamt því að koma LIV-mótaröðinni í golfi á laggirnar.

„Ef íþróttaþvætti mun auka landsframleiðsluna okkar um eitt prósent þá munum við halda áfram að stunda íþróttaþvætti,“ sagði Bin Salman í samtali við Fox News.

„Mér er alveg sama um þetta orð. Ég er búinn að ná fram eins prósent aukningu í landsframleiðslu í gegnum íþróttir og ég stefni á að ná einu og hálfu prósenti í viðbót.“

„Þið getið kallað þetta það sem ykkur sýnist, en við munum ná þessu eina og hálfa prósenti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×