Fótbolti

Óskar hvetur Blika til dáða: „Menn verði mjög vel stemmdir, hungraðir og hug­rakkir“

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Hrafn á Bloomfield leikvanginum í gær fyrir æfingu Breiðabliks
Óskar Hrafn á Bloomfield leikvanginum í gær fyrir æfingu Breiðabliks Vísir/Skjáskot

Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálfari karla­liðs Breiða­bliks í fót­bolta telur að sýnir leik­menn muni sýna hungur og hug­rekki er liðið opnar nýjan kafla í sögu ís­lensk fót­bolta með að verða fyrsta ís­lenska karla­liðið til að leika í riðla­keppni í Evrópu þegar liðið mætir Mac­cabi Tel Aviv í Sam­bands­deildinni á Bloom­fi­eld leik­vanginum í kvöld. Jafn­framt þurfti Breiða­blik að eiga sinn allra, allra besta leik til að ná í úr­slit hér í Tel Aviv.

Aron Guð­munds­son skrifar frá Tel Aviv, Ísrael.

Um er að ræða fyrstu um­ferð riðla­keppni Sam­bands­deildarinnar þetta tíma­bilið en auk Breiða­bliks og Mac­cabi Tel Aviv er B-riðillinn skipaður Gent frá Belgíu og Zor­ya Luhansk frá Úkraínu.

„Við þurfum að passa að þora vera við sjálfir, þora að spila boltanum og ekki hætta að gera þá hluti sem að komu okkur á þennan stað þó svo að nú sé sviðið stærra og meira undir.“

„Maður finnur fyrir blöndu af eftir­væntingu og pínu kvíða fyrir því ó­þekkta,“ segir Óskar í sam­tali við Vísi að­spurður hvernig til­finningin í hópnum sé fyrir þennan mikil­væga leik. „En við höfum svo sem ekki fengið ein­hvern brjál­æðis­lega mikinn tíma til þess að velta okkur upp úr þessum leik. 

Við vorum auð­vitað bara að spila núna síðast á sunnu­daginn og tökum ein­hvern veginn bara einn leik í einu. Þetta hefur þó verið, svona hægt og bítandi eftir að við komum hingað til Ísrael, að raun­gerast meira og meira. Auð­vitað er þetta bara mjög skemmti­legt.“

Klippa: Óskar Hrafn fyrir stórleik kvöldsins: Blanda af eftirvæntingu og pínu kvíða fyrir því óþekkta

Alltaf eitthvað sem þú getur ekki undirbúið þig fyrir

Í við­tali mínu við Robbie Kea­ne, þjálfara Mac­cabi Tel Aviv, sagði hann að fyrir svona leiki væri að­eins hægt að undir­búa sig upp að vissu marki. Er það eitt­hvað sem þú getur tekið undir, eru þið að renna dá­lítið blint í sjóinn fyrir þennan leik?

„Það er svo sem alveg rétt hjá Robbie að maður geti bara undir­búið sig upp að vissu marki. Við höfum fundið það í þessum ein­vígum sem við höfum spilað að seinni leikurinn gegn þeim liðum sem við höfum mætt er oftar en ekki auð­veldari heldur en fyrri leikurinn vegna þess að þú jú rennur blint í sjóinn. Á upp­tökunum getur maður séð hversu hratt leik­menn hreyfa sig en maður áttar sig svo ekki hversu hratt þeir hreyfa sig þegar í raun­veru­leikann er komið.“

„Auð­vitað eru alltaf uppi ein­hvern spurningar­merki fyrir svona leiki, það er alltaf eitt­hvað sem þú getur ekki undir­búið þig fyrir. Við vitum hins vegar að Mac­cabi Tel Aviv er gríðar­lega öflugt lið, vitum að þeir eru með frá­bær ein­stak­lings­gæði innan síns leik­manna­hóps. Síðan að Robbie Kea­ne tók við stjórnar­taumunum þarna hafa þeir ekki tapað leik og fóru í grunninn til­tölu­lega þægi­lega í gegnum undan­keppnina.“

Sviðið stærra og meira undir

Mac­cabi Tel Aviv sé lið sem er með mörg vopn í sínu búri.

„Þetta er lið sem við tökum al­var­lega og vitum að eiga okkar allra, allra besta leik til að eiga mögu­leika á því að fá eitt­hvað út úr þessu. En á sama tíma þurfum við að passa að þora vera við sjálfir, þora að spila boltanum og ekki hætta að gera þá hluti sem að komu okkur á þennan stað þó svo að nú sé sviðið stærra og meira undir. Við höfum ein­hverja hug­mynd um það hversu öflug pressan þeirra er, hversu fljótir þeir eru að færa boltann á milli manna en vitum það ekki fyrir al­vöru fyrr en við kynnumst því í leiknum.“

Leikur Mac­cabi Tel Aviv og Breiða­bliks hefst klukkan tíu í kvöld að staðar­tíma en klukkan sjö heima á Ís­landi. Þrátt fyrir að leikurinn fari svona seint af stað mun hita­stigið í Tel Aviv standa í um 27 gráðum og að sama skapi verður raka­stigið hátt.

Eru þetta að­stæður sem eru að fara hafa á­hrif?

„Já, þetta er auð­vitað gjör­ó­líkt því sem við þekkjum heima á Ís­landi en það er bara best að hugsa sem minnst um þessa þætti sem við getum ekki stjórnað. Við getum ekki stjórnað veður­fars­legum að­stæðum, getum ekki stjórnað því hvernig völlurinn er, höfum ekki stjórn á dómaranum. Það er fullt af hlutum sem við höfum ekki stjórn á en við höfum stjórn á frammi­stöðunni okkar, hvað við leggjum í leikinn, hversu til­búnir og hungraðir við erum.

Það er lang­best fyrir okkur að ein­beita okkur bara að því en það er alveg ljóst fyrir okkur að það að fara út og ætla hápressa þá í 90 mínútur við þessar að­stæður er ekki ger­legt. Við þurfum því að finna heil­brigt jafn­vægi milli þess að þora að stíga hátt á þá og svo falla á réttum tímum, passa að vera ekki of ákafir.“

Verða vel stemmdir: Hungraðir og hug­rakkir

Óskar Hrafn minnist á hungur sinna leik­manna en í kjöl­far tap­leiks Breiða­bliks gegn FH í Bestu deildinni um síðustu helgi, sem var þriðji tap­leikur Blika í röð, sagði Óskar Hrafn að það virtist vera sem svo að það skorti upp á hungur og drif­krafti hjá sínum leik­mönnum.

Eru leik­menn alveg klárir í þetta verk­efni núna?

„Ég hélt að leik­mennirnir mínir væru klárir á sunnu­daginn síðast­liðinn en svo var það ekki þannig og auð­vitað er það þannig fyrir hvern einasta leik að maður trúir því að leik­menn séu klárir. Þetta eru strákar sem hafa staðið sig mjög vel í gegnum tíðina, eru gott lið og frá­bærir fót­bolta­menn.

Ég hef alltaf sagt að maður geti ekki notað álag sem af­sökun en menn eru núna búnir að spila 38 al­vöru keppnis­leiki á þessu tíma­bili þar sem mikið er undir. Þá þarf maður að sýna því meiri skilning að á ein­hverjum tíma­punkti fyllist hausinn og and­leg og líkam­leg þreyta gerir vart um sig. Þá er bara oft erfitt koma sér af stað því þó hugurinn vilji það hreyfast lappirnar bara ekki.

Auð­vitað er það ömur­legt fyrir okkur að tapa tvisvar fyrir sama liðinu á okkar heima­velli, það fylgir því hörmungar til­finning en kannski var það eitt­hvað svona sem við þurftum á að halda til að fatta að við værum í þessum á­kveðnu vanda­málum, þurfum að bregðast við þessu og viður­kenna stöðuna og á­standið á hópnum, ná ein­hvern veginn að keyra okkur aftur í gang og vinna í því að hjálpa mönnum sem eru kannski orðnir þreyttari en þeir eru vanir að vera á venju­legu tíma­bili. Ég held að menn verði mjög vel stemmdir, hungraðir og hug­rakkir.“

Leikur Maccabi Tel Aviv og Breiðabliks hefst klukkan sjö í kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Vodafone Sport. Við verðum á Bloomfield leikvanginum í Tel Aviv og færum ykkur allt það helsta þaðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×