Fótbolti

Aftur­elding og Vestri með yfir­höndina fyrir seinni leikina

Smári Jökull Jónsson skrifar
Afturelding vann 2-1 sigur á Leikni í dag.
Afturelding vann 2-1 sigur á Leikni í dag. Facebooksíða Knattspyrnudeildar Aftureldingar

Afturelding og Vestri unnu sigra í fyrri umspilsleikjum Lengjudeilarinnar um sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili. Seinni leikir einvígjanna fara fram á laugardag.

Afturelding fór í heimsókn til Leiknis í Breiðholtinu en sigurvegari einvígis liðanna fer í úrslitaleik á Laugardalsvelli þar sem spilað verður um sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili.

Afturelding leiddi Lengjudeildina lengst af í sumar en gaf eftir undir lokin og fór í umspil. Þeir byrjuðu betur í leiknum í dag. Rasmus Christiansen kom liðinu yfir í fyrri hálfleik og Ásgeir Marteinsson bætti öðru marki við fyrir Mosfellinga þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka.

Omar Sowe minnkaði muninn fyrir Leikni skömmu fyrir leikslok og það mark gæti reynst dýrmætt þegar liðin mætast í Mosfellsbænum á laugardag.

Á Ísafirði tóku heimamenn í Vestra á móti Fjölni. Eina mark leiksins kom í fyrri hálfleik. Það skoraði Silas Songani fyrir heimamenn sem fara því með 1-0 forystu í síðari leikinn í Grafarvogi á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×