Fótbolti

Svöruðu landsliðskallinu þrátt fyrir verkfallið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Olga Carmona er ein þeirra sem mætti til móts við liðið í dag.
Olga Carmona er ein þeirra sem mætti til móts við liðið í dag. Oscar J. Barroso / AFP7 via Getty Images

Nokkrar af þeim spænsku landsliðskonum sem hafa verið í verkfalli undanfarið mættu til æfinga með liðinu í dag þrátt fyrir að þær hafi ítrekað að verkfallið haldi áfram þangað til breytingar verði gerðar.

Alls 39 leikmenn, þar af 21 af þeim 23 sem tóku þátt á HM staðfestu á dögunum að þær væru farnar í verkfall eftir að Luis Rubiales, fráfarandi forseti spænska sambandsins, kyssti Jenni Hermoso óumbeðinn á munninn eftir að Spánn sigraði England 1-0 í úrslitaleik HM fyrr í sumar.

Þrátt fyrir það voru 15 leikmenn sem höfðu gefið það út að þeir væru í verkfalli valdir í spænska landsliðið og nú hafa sex af þessum 15 mætt til æfinga.

Leikmennirnir sex eru allir búsettir í Madrid og hittust á hóteli þar í borg í dag áður en haldið var til Valencia til móts við liðið. Þeirra á meðal er Olga Carmona, en hún skoraði markið sem tryggði Spánverjum sinn fyrsta heimsmeistaratitil í kvennaflokki er liðið vann 1-0 sigur gegn Englendingum. Hinar fimm eru þær Misa Rodriguez, Oihane Hernandez, Teresa Abelleira, Athenea del Castillo og Eva Navarro. Athenea del Castillo er sú eina af þessum sex sem hefur ekki sagst styðja verkfallið.

Aðspurð að því hvort hún væri ánægð með að vera í hópnum sagði markvörðurinn Misa Rodriguez einfaldlega „nei“ en spænski íþróttablaðamaðurinn Guillem Balague fullyrðir að leikmennirnir hafi einungis mætt vegna ótta við lagalegu hliðina því svara ekki kallinu í landsliðið. Það geti haft í för með sér sektir og bann frá landsliðinu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.