Gylfi Þór samdi við Lyngby fyrr í þessum mánuði en hefur verið að glíma við meiðsli. Í samtali við danska miðilinn BT eftir sigur á Hvidovre um liðna helgi sagði Freyr Alexandersson, þjálfari liðsins, að Gylfi Þór yrði mögulega með í næsta leik gegn Vejle.
„Hann gæti verið í hópnum næsta föstudag, vonandi gengur það upp. Ef ekki þá verður hann klár í leikinn eftir það. Hann lítur vel út og hefur æft vel undanfarna daga,“ sagði Freyr.
Lyngby hefur byrjað tímabilið af miklum krafti eftir að rétt halda sæti sínu á síðustu leiktíð. Freyr vonast til að Gylfi Þór hjálpi liðinu að tryggja sæti sitt töluvert fyrr en þá enda var liðið í fallsæti fyrir lokaumferð síðasta tímabils.
Gylfi hefur verið án félags síðan samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Everton rann út sumarið 2022. Hann hefur ekki spilað fótboltaleik síðan í maí 2021 en hann var handtekinn síðar það sumar vegna gruns um brot gegn ólögráða einstaklingi.
Í apríl síðastliðnum lýsti lögreglan í Manchester því hins vegar yfir að sönnunargögn „næðu ekki þeim þröskuldi sem fellur að reglum saksóknara krúnunnar“, og var Gylfi þar með laus allra mála.