Enski boltinn

Fram­lengdi í sumar en er nú látinn taka poka sinn 74 ára gamall

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neil Warnock verður atvinnulaus annað kvöld.
Neil Warnock verður atvinnulaus annað kvöld. William Early/Getty Images

Neil Warnock mun stíga til hliðar sem þjálfari Huddersfield Town eftir leikinn gegn Stoke City í ensku B-deildinni í knattspyrnu annað kvöld. Hinn 74 ára gamli Warnock framlengdi veru sína hjá Huddersfield í sumar eftir að halda liðinu uppi en hefur ákveðið að nú sé nóg komið.

Í febrúar á þessu ári tók Warnock fram þjálfaragallann á nýjan leik og bjargaði Huddersfield frá falli. Þetta var í annað sinn sem hann tekur við þjálfun liðsins en hann stýrði því einnig frá 1993 til 1995.

Warnock hefur fyrir löngu gefið út að hann sé hættur í þjálfun en eftir síðasta tímabil ákvað hann að semja við Huddersfield til eins árs. Tímabilið byrjaði illa en liðið hefur þó unnið síðustu tvo leiki sína. Samt sem áður ákvað Huddersfield að breyta þyrfti og er stefnan að ráða inn mann sem getur stýrt liðinu til lengri tíma.

Warnock er ekki að hætta vegna heilsu sinnar þó 74 ára gamall sé og hefur gefið út að hann ætli að halda áfram að þjálfa. Á blaðamannafundinum þar sem tilkynnt var að hann myndi stíga til hliðar grínaðist Warnock með að kannski myndi hann fá tilboð frá Sádi-Arabíu upp á fleiri hundruð milljónir.

Þjálfaraferill Neil Warnock hófst árið 1980 og hefur hann stýrt liðum á borð við Cardiff City, Crystal Palace, Leeds United, Sheffield United og Middlesbrough.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.