Fótbolti

Infantino fékk kaldar kveðjur í Dallas

Valur Páll Eiríksson skrifar
Infantino fékk kaldar kveðjur vestanhafs.
Infantino fékk kaldar kveðjur vestanhafs. Getty

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, fékk heldur kaldar kveðjur þegar hann var á meðal áhorfenda á leik Dallas Cowboys og New York Jets í NFL-deildinni vestanhafs í gærkvöld.

Infantino sat með þeim Victor Montagliani, forseta CONCACAF, knattspyrnusambands Norður-Ameríku, og Eric Shanks, framkvæmdastjóra Fox Sports, á AT&T-vellinum í Dallas í gær. Spilað verður á vellinum á HM karla í fótbolta 2026 sem fram fer í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

Samkvæmt fréttamönnum á leik gærkvöldsins, sem Cowboys unnu örugglega, 30-10, var baulað hressilega á Infantino þegar honum var varpað upp á stóra skjáinn á vellinum.

Infantino hefur verið gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi vegna verkamanna sem unnu að uppbyggingu í Katar fyrir heimsmeistaramótið sem fram fór þar í landi í fyrra. Talið er að að minnsta kosti 6.500 verkamenn hafi látið lífið í aðdraganda mótsins og þeir unnið við afar slæmar aðstæður.

Ekki hefur verið opinberað hvar úrslitaleikur mótsins 2026 fer fram en eftir heimsókn Infantino til Dallas í gær hafa orðrómar farið á kreik um að hann fari þar fram.

Völlurinn í Dallas tekur 80 þúsund manns í sæti en hægt er að fjölga þeim í 105 þúsund.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.