Erlent

Kennir sér­­visku um þuklið og reykingarnar í leik­húsinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sætavísir leikhússins vísaði Lauren Boebert og Quinn Gallagher úr leikhúsinu vegna ósæmilegrar hegðunar.
Sætavísir leikhússins vísaði Lauren Boebert og Quinn Gallagher úr leikhúsinu vegna ósæmilegrar hegðunar. Vísir

Fulltrúadeildarþingkonan Lauren Boebert kennir sérviskulegum persónuleika sínum um hegðun sína á leiksýningunni Beetlejuice í vikunni. Boebert og kærasta hennar var sparkað úr leikhúsi í Denver fyrir að reykja rafrettu og vera með háreysti.

Í tilkynningu frá leikhúsinu sagði að tveimur gestum hafi verið vísað á dyr eftir ítrekaðar kvartanir frá öðrum leikhúsgestum. Á öryggismyndavélum má sjá Boebert í símanum og blása frá sér rafsígarettureyk. Parið sést einnig þukla hvort á öðru á myndbandsupptökum.

Hin 36 ára Boebert sem er þingmaður Repúblikana baðst afsökunar á hegðun sinni á föstudag en virtist í viðtali í dag firra sig ábyrgð. 

„Ég var aðeins of sérviskuleg. Ég er þekkt fyrir að vera með mjög fjörlegan persónuleika. Kannski aðeins og fjörlegan,“ sagði Boebert í viðtali við fréttastofu One America News Network í dag.

„Ég var hlæjandi, syngjandi og að skemmta mér konunglega. Mér var sagt að róa mig aðeins niður, sem ég og gerði en næstu mistök mín voru að taka mynd,“ sagði Boebert við OAN. Þá neitaði hún að hafa haft í hótunum við sætavísi á meðan verið var að fylgja parinu út úr salnum.

Fjöldi kvartana yfir parinu

Í tilkynningu frá leikhúsinu er haft eftir sætavísi að hann hafi varað Boebert og félaga hennar við í hléi að þeim yrði vísað á dyr, létu þau ekki af háttsemi sinni, eftir að hafa fengið fjölda kvartana frá leikhúsgestum.

Þau hafi þó haldið áfram uppteknum hætti eftir hlé og hann því vísað þeim á dyr en þau setið sem fastast. Þá hafi hann sagst ætla að hringja til lögreglu og Boebert hvatt hann til þess.

Á meðan þau voru leidd út úr leikhúsinu hafi Boebort sagt hluti á borð við „veistu ekki hver ég er?“, „ég sit í stjórninni [leikhússins] og „ég hef samband við borgarstjórann.“ Boebert hefur neitað þessu og segist ekki sitja í neinni stjórn.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið úr myndbandsupptökum:

Klippa: Þingmanni sparkað úr leikhúsi


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×