Fótbolti

Kristall hefur fundið fegurðina í boltanum á nýjan leik eftir krefjandi tíma

Aron Guðmundsson skrifar
Kristall Máni Ingason, leikmaður Sønderjyske og undir 21-árs landsliðs Íslands í fótbolta
Kristall Máni Ingason, leikmaður Sønderjyske og undir 21-árs landsliðs Íslands í fótbolta Vísir

Kristall Máni Inga­son, leik­maður u-21 árs lands­liðs Ís­lands í fót­bolta, hefur fundið fegurðina í fót­boltanum á nýjan leik í her­búðum Sønderjyske eftir krefjandi tíma hjá Rosen­borg. Kristall verður í eld­línunni með u-21 árs lands­liðinu síðar í dag þegar liðið tekur á móti Tékk­landi í fyrsta leik sínum í undan­keppni EM 2025 á Víkings­velli.

„Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá er ég mjög spenntur fyrir þessu verk­efni,“ segir Kristall Máni. „Fram­undan er fyrsti leikur í riðlinum, við erum búnir að taka nokkra æfinga­leiki í að­draganda þessa leiks og hlutirnir hafa gengið fínt hjá okkur.“

Hann metur riðilinn, sem Ís­land er í á­samt Dan­mörku, Wa­les, Tékk­landi og Litháen, sem mjög jafnan riðil.

„Ég myndi segja það já, það er ekkert eitt lið sem á að fara stinga af. Þetta verða margir jafnir leikir og ég er spenntur fyrir því að spila á móti þessum liðum.“

Setjið þið þá kröfu á ykkur að klára þennan leik á morgun með sigri?

„Já klár­lega. Við setjum þá kröfu á okkur á móti hvaða liði sem er, sér­stak­lega á heima­velli. Þetta er heima­völlurinn okkar og hér viljum við alltaf taka stigin þrjú.“

Hefur fundið sína fjöl á ný

Kristall Máni gekk til liðs við lið Sønderjyske, sem spilar í næst­efstu deild í Dan­mörku, fyrir komandi tíma­bil eftir ansi erfiðan og krefjandi tíma hjá norska úr­vals­deildar­fé­laginu Rosen­borg.

Kristall Máni Ingason fagnar marki með SønderjyskeTwitter@SEfodbold

Í Dan­mörku hefur honum tekist að finna leik­gleðina á nýjan leik, skorað tvö mörk og gefið eina stoð­sendingu í átta leikjum.

Á dögunum setti Kristall inn færslu á sam­fé­lags­miðlinum X og þar stóð: „Gott að finna aftur hvað þessi í­þrótt er fal­leg.“

Að­spurður hvernig honum liði hjá Sønderjyske, stóð ekki á svörum hjá þessum hæfi­leika­ríka leik­manni.

„Mér líður mjög vel þar. Þetta hefur allt smollið vel saman og gengið vel. Sønderjyske er í litlum bæ en það er bara heimilis­legt og við erum með hörku lið í höndunum. Vonandi náum við bara að tryggja okkur upp og spila í betri deild á næsta ári.

Leikur Ís­lands og Tékk­lands í undan­keppni EM 2025 verður í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport. Við hefjum beina út­sendingu frá Víkings­velli klukkan 16:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×