Erlent

Þrjár milljónir í fundar­laun fyrir stroku­fangann

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Eftirlit hefur verið hert verulega um allt land.
Eftirlit hefur verið hert verulega um allt land. MET/AP

Löggæsluyfirvöld í Bretlandi bjóða tuttugu þúsund pund, eða rúmar þrjár milljónir, fyrir upplýsingar sem leitt geta til handtöku manns sem strauk úr fangelsi í vikunni. Gríðarmikil leit hefur staðið yfir síðustu daga, mest í Lundúnum en raunar um gjörvallt land.

Maðurinn heitir Daniel Abed Khalife og er 21 árs. Hann var handtekinn þegar hann gegndi herþjónustu, sakaður um að hafa komið gervisprengjum fyrir á herstöð sinni í janúar á þessu ári. Khalife er einnig grunaður um landráð, með því hafa reynt að njósna fyrir annað ríki, sem talið er vera Íran. 

Khalife var að sinna eldhússtörfum í fangelsinu þegar hann er talinn hafa sloppið út. Hann á að hafa bundið sig undir sendiferðarbíl og sloppið þannig í gegnum varnir fangelsisins. Lögregla telur sig nú hafa fundið vitni, sem kveðst hafa séð Khalife koma undan sendiferðarbílnum, á Trinity Road. Hann er talinn hafa farið fótgangandi að Wandsworth verslunarmiðstöðinni í Lundúnum.

Eins og fyrr segir stendur mikil leit yfir. 150 lögregluþjónar hafa tekið þátt í leitinni og umfangsmesta leitin hefur farið fram í Lundúnum. Lögreglan útilokar þó ekki að Khalife hafi komist út úr borginni og kannar því alla möguleika.

„Ég vil að almenningur viti að lögreglumenn vinni að baki brotnu við að ná strokufanganum. Þetta er gríðarstórt aðgerð og við munum finna hann,“ sagði Dominic Murphy sem leiðir lögregluaðgerðirnar við Breska ríkisútvarpið. Hann hvatti Khalife sömuleiðis til að stíga fram.

Almenningur hefur verið duglegur að hjálpa til við leitina og allir sem kunna að hafa séð Khalife eru beðnir um að hafa tafarlaust samband við lögreglu. Khalife er ekki talinn hættulegur en fólk er beðið um að nálgast hann ekki.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×