Greenwood var handtekinn þann 30. janúar 2022 og ákærður fyrir líkamsárás og tilraun til nauðgunar. Mál hans var nýlega fellt niður vegna ónægra sönnunargagna og leikmaðurinn fór á láni frá Manchester United til Getafe í von um að endurvekja knattspyrnuferilinn.
Í kjölfar handtökunnar var Greenwood fjarlægður úr tölvuleiknum FM en snýr nú aftur í næstu uppfærslu. The Athletic greinir frá yfirlýsingu Sports Interactive, framleiðanda leiksins, varðandi mál hans: „Leikmenn eða þjálfarar í ótímabundnu banni frá knattspyrnuiðkun, sama hver ástæðan er, verða fjarlægður úr leiknum. Að banninu loknu verður aðilinn færður aftur inn í leikinn í næstu uppfærslu.“
EA Sports sem gefur út tölvuleikinn EASFC 24, staðgengil FIFA leikjanna vinsælu, sagðist ætla að gefa út yfirlýsingu um hans mál á næstu misserum.
Ákvörðun Manchester United að slíta ekki samningi Greenwood við félagið hefur verið harðlega gagnrýnd af mörgum stuðningsmönnum félagsins. Félagið kaus að lána hann út og því er enn möguleiki á því að leikmaðurinn spili aftur fyrir Manchester United.
Í 129 leikjum fyrir félagið skoraði Greenwood 35 mörk en hann hefur ekki spilað leik síðan 22. janúar 2022. Talið er líklegt að hann snúi aftur á völlinn eftir landsleikjahlé þegar Getafe tekur á móti Osasuna þann 17. september.