Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Kefla­vík 3-0 | Stjarnan í efri hlutann en Keflvíkingar berjast við falldrauginn

Dagur Lárusson skrifar
Stjörnumenn fögnuðu sigri í dag.
Stjörnumenn fögnuðu sigri í dag. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan tryggði sér endanlega sæti í efri hluta Bestu deildar karla í dag 3-0 með sigri á Keflavík.

Fyrir leikinn var Stjarnan í fjórða sætinu með 31 stig, sem og KR og FH en þó með mikið betri markatölu. Næsta lið á eftir þeim þremur var KA sem gat aðeins jafnað Stjörnuna að stigum en þó með mikið verri markatölu.

Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan stýrði leiknum frá upphafi til enda og má segja að Keflavík hafi aldrei séð til sólar. Fyrsta mark Stjörnunnar kom á 21.mínútu en þá fékk Hilmar Árni boltann rétt fyri utan teig frá Eggerti Aroni og tók viðstöðulaust skot sem fór í varnarmann og í netið.

Annað markið kom síðan 32.mínútu en þá fékk Eggert Aron sendingu inn fyrir háa vörn Keflavíkinga og nýtti hraða sinn til að stinga varnarmann Keflavíkur af áður hann kláraði framhjá Mathias í markinu. Staðan 2-0 í hálfleik.

Vísir/Hulda Margrét

Seinni hálfleikurinn var heldur bragðdaufur og voru ekk mörg færi sem litu dagsins ljós fyrr en undir blálokin þegar Emil Atlason skoraði síðasta mark Stjörnunnar. Emil fékk boltann til sín inn á teig, tók hann á kassann áður en hann þrumaði honum í netið. Staðan orðin 3-0 og það voru lokatölur.

Vísir/Hulda Margrét

Afhverju vann Stjarnan?

Leikmenn Stjörnunnar mættu ákveðnir til leiks á meðan það var ekki það sama hægt að segja um leikmenn Keflavíkur. Leikgleði, áræðni og barátta einkenndi lið Stjörnunnar.

Hverjir stóðu uppúr?

Eggert Aron var enn og aftur allt í öllu í sóknarleik Stjörnunar, skoraði annað markið og lagði upp það fyrsta.

Hvað fór illa?

Keflvíkingar sáu ekki til sólar og það var ljóst frá fyrsti mínútu að það var ekki mikil trú á verkefninu meðal leikmanna liðsins.

Jökull Elísabetarson: Vel spilað og gott að halda hreinu

Vísir/Hulda Margrét

„Mér fannst spilamennskan góð en þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum,” byrjaði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, að segja í viðtali eftir leik.

„Fyrstu sextíu mínútur leiksins voru mjög góðar hjá okkur en eftir það var þetta smá skrítið, þeir fóru þá aðeins að klóra í bakkann og við bökkuðum aðeins,” hélt Jökull áfram að segja.

„En svona á heildina er litið þá var þetta mjög vel spilað og gott að halda hreinu.”

Jökull talaði aðeins um muninn á síðasta leik.

„Í síðasta leik þá vantaði kannski smá kraft í okkur en það var samt fínn leikur að mörgu leyti. En í þessum leik var krafturinn kominn aftur og því unnum við leikinn,” endaði Jökull á að segja.

Haraldur Freyr Guðmundsson: Töpuðum fyrir betra liði

Vísir/Hulda Margrét

„Við töpuðum fyrir mikið betra liði í dag, það er svo einfalt,” byrjaði Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur að segja eftir leik.

„Við vorum mjög lélegir í fyrri hálfleik og það svona skóp sigurinn hjá þeim má segja. Við gerðum breytingar í hálfleik og þá sá ég eitt og annað jákvætt, sá einhverja leikmenn sem sýndi mér að þeir vildu spila allaveganna, þetta var skömminni skárri í seinni,” hélt Haraldur áfram að segja.

Haraldur var þó jákvæður fyrir komandi leiki í úrslitakeppninni.

„Núna fáum við smá pásu og við mætum síðan ferskir í þessa úrslitakeppni. Ég verð alltaf með eitthvað plan fyrir hvern og einn leik og það mun koma í ljós seinna,” endaði Haraldur Freyr að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira