Innlent

Góð stemning í Leifs­stöð þegar ný tösku­færi­bönd voru tekin í notkun

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia segir daginn í dag marka tímamót í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar.
Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia segir daginn í dag marka tímamót í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Vísir/Sigurjón

Nýr og rúmbetri töskusalur beið farþega sem lentu á Keflavíkurflugvelli upp úr hádegi í dag. Töskusalurinn er fyrsti áfanginn sem tekinn er í notkun í nýrri austurálmu flugstöðvarinnar.

Töskusalurinn er í nýrri viðbyggingu við flugstöðina í svokallaðri austurálmu. Í dag voru vígð þrjú ný töskubönd sem eru stærri og afkastameiri en þau sem fyrir voru. Nýju böndin eru hallandi og geta tekið á móti talsvert fleiri töskum en eldri böndin.

Síðar munu tvö bönd í viðbót bætast við. Eldri böndin verða fjarlægð en á því svæði verður síðar opnuð ný og endurbætt fríhafnarverslun fyrir komufarþega.

„Varðandi farangur þá erum við bæði að fá meiri afköst, erum að fá fleiri töskur fyrir per meter, betri aðgengi fyrir farþega, erum að fá opnari sal, betri hljóðgæði og loftgæði í salinn okkar, sem er náttúrulega jákvætt fyrir farþega og starfsfólkið okkar,“ segir Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia. 

„Svo erum við líka með nýja farangursmóttöku sem við erum líka að opna í dag sem er hinum megin við vegginn sem farþegar sjá oftast ekki. Þar er líka betri aðstaða fyrir starfsfólkið okkar. Við erum farinað spá meira í hvernig starfsfólkið er að beita sér og annað. Þannig við erum að taka svona þessi jákvæðu skref, að hugsa betur og betur um bæði farþegana og starfsfólkið.“

Nýju töskuböndin eru stærri og afkastameiri en þau gömlu. Vísir/Sigurjón

Fyrstu farþegarnir sem nýttu sér nýja töskubeltið komu frá Dublin og Frankfurt með vélum Play og Lufthansa. Þeirra biðu góðar móttökur, kampavín og ýmis sætindi auk tónlistaratriða.

Framundan er gríðarmikil uppbygging á flugvallarsvæðinu. Áætlað er að framkvæmdum við austurbygginguna ljúki á síðari hluta næsta árs þegar meðal annars verður tekið í notkun stærra veitingasvæði og fjórir nýir landgangar. Austurálman tuttugu þúsund fermetrar, en til samanburðar er Laugardalshöll sautján þúsund fermetrar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×