Fótbolti

Gravenberch mætti ekki á æfingu og nálgast Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ryan Gravenberch vill komast til Liverpool.
Ryan Gravenberch vill komast til Liverpool. Vísir/Getty

Hollenski miðjumaðurinn Ryan Gravenberch var ekki sjáanlegur á æfingu hjá Þýskalandsmeisturum Bayern München í morgun. Liverpool hefur verið á eftir Gravenberch undanfarna dag og leikmaðurinn er sagður vilja koma félagaskiptunum í gegn.

Liverpool og Bayern eiga enn í viðræðum um mögulegt kaupverð á miðjumanninum sem gekk í raðir þýska stórveldisins síðasta sumar frá Ajax. Þýsku meistararnir eru sagðir vilja á milli 30 og 35 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Forráðamenn Bayern eru þó ekki hrifnir af því að selja Gravenberch nema vera búnir að tryggja sér annan leikmann í staðinn. Félagið vinnur nú í því að reyna að að fá Joao Palhinha frá Fulham.

Liverpool er þó ekki eina félagið í ensku úrvalsdeildinni sem hefur áhuga á því að fá Gravenberch í sínar raðir. Erkifjendur þeirra í Manchester United hafa lengi haft augastað á leikmanninum og þrátt fyrir að Liverpool sé líklegri áfangastaður fyrir Hollendinginn hafa forráðamenn Manchester United þó ekki gefist upp í kapphlaupinu.

Gravenberch er enn aðeins 21 árs gamall. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Ajax í september 2018, þá aðeins 16 ára og 130 daga gamall sem gerði hann að yngsta leikmanni liðsins til að spila deildarleik frá upphafi.

Hann lék 25 deildarleiki fyrir Bayern á síðasta tímabili og á einnig að baki 11 leiki fyrir hollenska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×