Erlent

Fjórir látnir eftir skot­á­rás í Flórída

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Íbúar í nágrenninu standa saman í hring og biðja fyrir fórnarlömbum árásarinnar.
Íbúar í nágrenninu standa saman í hring og biðja fyrir fórnarlömbum árásarinnar. AP/John Raoux

Að minnsta kosti fjórir eru látnir eftir skotárás í verslun í Jacksonville í Flórída í dag. Ekki er búið að nafngreina skotmanninn en hann ku vera látinn og hafði ritað stefnuyfirlýsingu um áætlanir sínar áður en hann framkvæmdi árásina.

Donna Deegan, bæjarstjóri Jacksonville, greindi frá árásinni, sem átti sér stað inni í verslun Dollar General í bænum, í viðtali við fréttastofu WJXT. „Ein skotárás er of mikið en það er virkilega erfitt að takast á við þessar fjöldaskotárásir,“ sagði Deegan í viðtali.

Ju'Coby Pittman, borgarstjórnarmeðlimur í Jacksonville, sagði við WJXT að skotmaðurinn væri dáinn en gat ekki gefið frekari upplýsingar.

Borgaryfirvöld hafa greint frá því að blaðamannafundur hennar og sýslumanns verði haldinn á næstunni til að greina frá frekari upplýsingum um málið.

Lögregluþjónar í Jacksonville girða af svæðið í grinum Dollar General-verslunina þar sem skotárásin átti sér stað.AP/John Raoux

Grunsamlegur maður við bókasafnið

Fjöldi lögregluþjóna er á svæðinu í nágrenni við Edward Waters háskóla (EWU) en að sögn sjónarvotta sást til grunsamlegs manns við skólann í kringum 12:45 að staðartíma. 

Maðurinn á að hafa farið bak við bókasafn skólans þar sem hann setti á sig skothelt vesti. Öryggisverðir skólans reyndu að hafa upp á manninum en tókst það ekki. Hann hafi síðan farið í verslunina.

Heimildarmenn WJXT herma að foreldrar skotmannsins hafi tilkynnt sýslumanni Clay-sýslu um áætlanir hans eftir að þau fundu stefnuyfirlýsingu hans.

Skólastjórnendur EWU hafa sagt nemendum skólans að halda sig inni í herbergjum sínum á meðan verið er að tryggja svæðið. Enginn tengdur skólanum hafi verið viðriðinn árásina, hvorki nemendur né starfsmenn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×