Erlent

Um­fangs­mesta leitin að Loch Ness-skrímslinu í fimm­tíu ár

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Þjóðsagan um Loch-Ness skrímslið hefur verið við lýði í um fimmtán hundruð ár. 
Þjóðsagan um Loch-Ness skrímslið hefur verið við lýði í um fimmtán hundruð ár.  AP

Umfangsmesta leitin að Loch Ness-skrímslinu í fimmtíu ár fer fram um helgina en nokkur hundruð sjálfboðaliðar hafa boðið fram aðstoð sína við að finna vatnaskrímslið fræga. 

Í frétt BBC segir að tvö hundruð manns hafi boðist til að vakta stöðuvatnið yfir helgina frá sérstökum Loch Ness-útsýnisstöðum við vatnið. Þá hafi þrjú hundruð manns boðist til að streyma leitinni frá mismunandi sjónarhornum. 

Leitin var skipulögð af Loch Ness-miðstöðinni í Drumnadrochit. Drónum verður flogið yfir stöðuvatnið auk þess sem neðansjávar hljóðnemum verður komið fyrir í vatninu, sem er 36 kílómetrar að lengd og víða yfir tvö hundruð metra djúpt. 

Skipuleggjendur segja leitina þá stærstu við vatnið síðan árið 1972, þegar rannsóknarskrifstofa Loch Ness-skrímslisins framkvæmdi rannsókn á svæðinu. 

Skrímslið mögulega risaáll

Níutíu ár eru síðan að nútímaþjóðsagan af Loch Ness-skrímslinu varð til. Árið 1933 sagðist starfsmaður hótels á svæðinu hafa séð risavaxna veru í vatninu. Sagan dregst þó aftur til miðalda þegar írskur munkur sagðist hafa séð skrímsli í Ness-ánni, sem rennur frá vatninu.

Árið 2019 kynntu nýsjálenskir vísindamenn niðurstöðu sem mögulega kann að útskýra þjóðsöguna. Þeir sögðu að mögulega hafi verið um risavaxinn ál að ræða.

Prófessorinn sem leiddi rannsóknina sagði að engin gögn um að risavaxin dýr hafi lifað í vatninu hafi fundist. Þá hafi lengi mikið verið um ál í vatninu og því einhverjar líkur á að Loch Ness-skrímslið hafi í raun verið risaáll. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×