Erlent

Rann­saka and­lát 88 ein­stak­linga í tengslum við „eitur­sala“ í Kanada

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kenneth Law var handtekinn í maí síðastliðnum.
Kenneth Law var handtekinn í maí síðastliðnum. Peel Regional Police

Lögregluyfirvöld á Bretlandseyjum telja að minnsta kosti 88 einstaklinga þar í landi hafa látist eftir að hafa verslað efni af „eitursala“ í Kanada. Kenneth Law var handtekinn í maí síðastliðnum og er grunaður um að hafa aðstoðað fólk við að fremja sjálfsvíg.

Lögregla í Kanada hóf rannsókn málsins í kjölfar grunsamlegs dauðsfalls einstaklings í Toronto. Law, 57 ára, er talinn hafa haldið úti nokkrum vefsíðum þar sem hann seldi varning til fólks sem var í sjálfsvígshugleiðingum, þar á meðal eitur sem hann sendi til yfir 40 landa.

Yfirvöld á Bretlandseyjum hafa unnið að því frá handtöku Law að hafa samband við og athuga með alla sem vitað er að pöntuðu efnið frá honum. Um er að ræða 232 einstaklinga sem versluðu við Law á tveggja ára tímabili.

Samkvæmt lögreglu eru 88 af þeim látnir en enn á eftir að ganga úr skugga um hvort fólkið dó eftir að hafa innbyrt efnið frá Law. 

BBC hefur rætt við föður Tom Parfett, sem var 22 ára þegar hann tók eigið líf í október 2021 eftir að hafa keypt efni af Law. David Parfett segist reiður lögreglunni fyrir að gera ekki meira til að loka vefsíðum þar sem níðst sé á ungum og viðkvæmum einstaklingum.

Parfett sagði son sinn hafa rætt um að fremja sjálfsvíg í hópum tileinkuðum málefninu á netinu, þar sem hann hefði jafnvel fengið hvatningu til að láta til skarar skríða.

„Við verðum að horfast í augu við það að í nútímasamfélagi getur fólk fundið annað fólk með sömu hugðarefni til að ræða erfiðustu málefni... það er ekkert eftirlit með þessum samfélögum og þau eru að valda gríðarlegum skaða,“ segir Parfett.

Hér má finna umfjöllun BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×