Fótbolti

Forsætisráðherra Spánar gagnrýnir Rubiales

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pedro Sánchez tekur í spaðann Luis Rubiales þegar hann tók á móti spænsku heimsmeisturunum.
Pedro Sánchez tekur í spaðann Luis Rubiales þegar hann tók á móti spænsku heimsmeisturunum. getty/Burak Akbulut

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, segir framkomu Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, eftir úrslitaleik HM óásættanlega.

Rubiales hefur víða fengið á baukinn fyrir að kyssa Jennifer Hermoso á munninn eftir úrslitaleik HM þar sem Spánn vann England, 1-0. Forsætisráðherra Spánar hefur nú tjáð sig um kossinn.

„Við urðum vitni að óásættanlegri framkomu,“ sagði Sánchez sem finnst myndbandið þar sem Rubiales baðst afsökunar á kossinum ekki vera nóg. 

„Afsökunarbeiðnin dugar ekki og er ófullnægjandi. Leikmennirnir lögðu allt í leikinn en Rubiales sýndi að það er enn langur vegur í átt að jafnrétti.“

Ekki nóg með að Rubiales hafi smellt rembingskossi á Hermoso á verðlaunapallinum heldur kyssti hann fleiri leikmenn spænska liðsins niðri á vellinum. Þá greip hann um klofið á sér þegar úrslitaleiknum. Skammt frá honum í heiðursstúkunni stóð Spánardrottning.

Það er ekki bara Rubiales sem kom sér í klandur með framkomu sinni á sunnudaginn. Þjálfari spænska liðsins, Jorge Vilda, greip nefnilega í brjóst samstarfskonu sinnar þegar hann fagnaði marki Olgu Carmona í úrslitaleiknum.

Rubiales hefur alltaf staðið þétt við bakið á hinum umdeilda Vilda, meðal annars eftir að fimmtán leikmenn spænska landsliðsins skrifuðu bréf þar sem þjálfunaraðferðir hans voru harðlega gagnrýndar og sagt að hann hafi haft slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu leikmanna. Aðeins örfáir af leikmönnunum fimmtán sem sendu bréfið voru í heimsmeistaraliði Spánar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×