Fótbolti

Grát­báðu Her­mos­o um að koma fram í fyrir­gefningar­mynd­bandi eftir kossinn al­ræmda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bakkabræðurnir Luis Rubiales og Jorge Vilda fagna heimsmeistaratitli Spánverja.
Bakkabræðurnir Luis Rubiales og Jorge Vilda fagna heimsmeistaratitli Spánverja. getty/Maja Hitij

Forseti spænska knattspyrnusambandsins grátbað Jennifer Hermoso um að koma fram í myndbandi þar sem hann baðst afsökunar á að hafa kysst hana á munninn eftir úrslitaleik HM.

Sem frægt var smellti Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, kossi á munn Hermosos þegar hún tók við verðlaunum sínum eftir úrslitaleik HM. Þar vann Spánn England með einu marki gegn engu.

Eftir að hafa upphaflega sagt öllum sem gagnrýndu hann til syndanna fann Rubiales sig knúinn til að biðjast afsökunar á kossinum fræga.

Hermoso sagðist fyrst ekkert hafa verið fyrir kossinn gefin en skömmu síðar kvað við annan tón og hún afsakaði hegðun Rubiales.

„Þetta gerðist bara í hita augnabliksins sökum þeirrar gríðar­legu á­nægju sem fylgir því að vinna heims­meistara­titilinn,“ segir Her­mos­o í yfir­lýsingu sem AFP frétta­veitunni barst frá spænska knatt­spyrnu­sam­bandinu. 

„Við for­setinn eigum í góðu sam­bandi. Hegðun hans, gagn­vart okkur öllum, hefur verið fram­úr­skarandi. Þetta var bara hans leið til þess að sýna ást­úð og þakk­læti.“

Samkvæmt frétt miðilsins Revelo grátbað Rubiales Hermoso einnig um að koma fram í myndbandi þar sem hann baðst afsökunar á kossinum. Hún neitaði því.

Þá leitaði Rubiales til þjálfara spænska liðsins, Jorge Vilda, og fékk hann með sér í lið. Á leiðinni heim frá Ástralíu talaði Vilda þrisvar sinnum við fjölskyldu Rubiales til að reyna að sannfæra hana um að koma fram í myndbandinu. Hermoso gaf sig hins vegar ekki og Rubiales var einn í afsökunarmyndbandinu sem var tekið á flugvelli í Doha.

Vilda er sjálfur kominn í klandur eftir að myndband af honum þar sem hann sést klípa í brjóst samstarfskonu sinnar birtist á samfélagsmiðlum.

Vilda er afar umdeildur en frægt er þegar fimmtán leikmenn spænska landsliðsins skrifuðu undir bréf þar sem þjálfunaraðferðir hans voru harðlega gagnrýndar og sagt að hann hefði slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu leikmanna. Vilda hefur þó alltaf notið stuðnings Rubiales.


Tengdar fréttir

Greip um klofið á sér í leikslok og kyssti fleiri leikmenn

Forseti spænska knattspyrnusambandsins hneykslaði marga með framkomu sinni á úrslitaleik HM kvenna og nú hefur komið í ljós að hann gerð mun meira en bara að smella rembingskossi á einn leikmenn spænska liðsins á verðlaunapallinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×