Fótbolti

Forsetinn tjáir sig um kossinn: „Hálfvitar alls staðar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Rubiales fagnar heimsmeistaratitli Spánverja.
Luis Rubiales fagnar heimsmeistaratitli Spánverja. getty/Alex Pantling

Luis Ru­bi­a­les, forseti spænska knattspyrnusambandsins, hefur tjáð sig um rembingskossinn sem hann rak Jennifer Hermoso eftir að Spánn varð heimsmeistari í fótbolta kvenna.

Þegar spænsku leikmennirnir tóku á móti gullmedalíunum eftir 1-0 sigurinn á Englendingum í úrslitaleik HM í gær kyssi Rubiales Hermoso beint á munninn.

Kossinn hefur vakið mikla athygli. Fyrst sagðist Hermoso vera ósátt við hann en dró síðan í land og bar blak af Rubiales. „Þetta gerðist bara í hita augnabliksins sökum þeirrrar gríðar­legu á­nægju sem fylgir því að vinna heims­meistara­titilinn,“ segir Her­mos­o í yfir­lýsingu sem AFP frétta­veitunni barst frá spænska knatt­spyrnu­sam­bandinu.

„Við for­setinn eigum í góðu sam­bandi. Hegðun hans, gagn­vart okkur öllum, hefur verið fram­úr­skarandi. Þetta var bara hans leið til þess að sýna ást­úð og þakk­læti.“

Sjálfur segist Rubiales ekki hafa gert neitt rangt og fór mikinn í viðtali við Radio Marca þar sem hann baunaði á þá sem hafa gagnrýnt hann fyrir kossinn alræmda.

„Kossinn með Jenni? Það eru hálfvitar alls staðar. Þegar fólk sýnir smá ástúð er ekki hægt að hlusta á hálfvitana. Við erum heimsmeistarar. Ég held mig við það,“ sagði Rubiales. Við sama tón kvað í viðtali við El Partidazo.

„Við gefum kjaftæðinu ekki gaum. Eftir allt sem ég hef gengið í gegnum nenni ég ekki meira kjaftæði og fleiri hálfvitum. Hunsum þetta og njótum okkar. Ekki segja mér frá hálfvitum sem sjá ekkert jákvætt. Það var ekkert illt í þessu. Leyfum hálfvitunum að bulla áfram. Það eru til fleiri hálfvitar en gluggar. Einbeitum okkur að þeim sem eru ekki fífl.“

Hermoso klúðraði vítaspyrnu í úrslitaleiknum en það kom ekki að sök. Mark Olgu Carmona tryggði Spánverjum sinn fyrsta heimsmeistaratitil í kvennaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×