Enski boltinn

Verk­takinn gjald­þrota og fram­kvæmdum á Anfi­eld seinkar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Framkvæmdir hafa staðið yfir á Anfield síðustu misserin.
Framkvæmdir hafa staðið yfir á Anfield síðustu misserin. Vísir/Getty

Opnun endurbættrar stúku á Anfield gæti seinkað enn frekar vegna yfirvofandi gjaldþrots verktakans. Aðeins hluti stúkunnar verður í notkun þegar Liverpool leikur sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu á laugardag.

Miklar framkvæmdar hafa verið á Anfield heimavelli enska knattspyrnufélagsins Liverpool. Unnið hefur verið að því að stækka stúkuna sem liggur við Anfield Road veginn og að framkvæmdum loknum munu 61.000 áhorfendur geta fylgst með leikjum liðsins.

Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Byggingaverktakinn Buckingham Group sem hefur umsjón með framkvæmdunum er á leið í gjaldþrotaskipti en óljóst er hvaða áhrif það mun hafa á opnun stúkunnar.

Buckingham Group hefur sent inn skjöl um fyrirhuguð gjaldþrotaskipti en fær nú tíu daga til að reyna að leysa úr sínum málum. Bréf hefur verið sent til dómstóla um að stefnt sé að gjaldþrotaskiptum náist ekki að finna lausn á fjárhagsvandræðum fyrirtækisins.

Upphaflega var gert ráð fyrir að endurbætt stúka yrði tilbúin fyrir fyrsta heimaleik Liverpool gegn Bournemouth á laugardag. Fyrir nokkrum vikum varð hins vegar ljóst að stúkan yrði ekki tilbúin þá. Liverpool hefur þó fengið leyfi til að nota hluta stúkunnar á laugardag.

„Eftir öryggisprófanir í vikunni fengum við samþykki fyrir því frá bygginganefnd Liverpoolborgar að opna neðri hluta stúkunnar fyrir leikinn. Við hlökkum til að bjóða stuðningsmenn velkomna á fyrsta heimaleikinn gegn Bournemouth.“

„Við munum vinna með Buckingham Group hvað varðar endanlega opnun stúkunnar og munum halda áfram að upplýsa stuðningsmenn um stöðu mála. Þetta á sérstaklega við um þá stuðningsmenn sem eiga miða á leikinn gegn Astona Villa,“ segir í yfirlýsingu Liverpool. 

Leikurinn gegn Aston Villa er á dagskrá 3. september og má gera ráð fyrir að stúkan verði ekki tilbúin í tíma fyrir þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×