Fótbolti

Njarð­vík úr fall­sæti og Aftur­elding heldur á­fram að tapa stigum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Njarðvíkingar hafa unnið sigur í fjórum leikjum í röð.
Njarðvíkingar hafa unnið sigur í fjórum leikjum í röð.

Njarðvík er komið úr fallsæti Lengjudeildarinnar í knattspyrnu eftir 3-2 sigur á Selfossi í kvöld. Topplið Aftureldingar gerði jafntefli við Vestra og hefur ekki náð sigri í síðustu fjórum leikjum.

Heil umferð fer fram í Lengjudeild karla í kvöld og er fimm leikjum nú þegar lokið. 

Í Grindavík tóku heimamenn á móti Leikni en Grindvíkingar unnu sigur á toppliði Aftureldingar í síðustu umferð og virðast vera að ná vopnum sínum eftir erfiða byrjun og nýleg þjálfaraskipti.

Aðeins eitt mark var skorað á Stakkavíkurvelli í kvöld. Það gerði Símon Logi Thasaphong í fyrri hálfleik eftir góða skyndisókn heimamanna. Grindvíkingar færast upp töfluna með sigrinum og eru nú fjórum stigum á eftir Leikni og Vestra sem sitja í 4. - 5. sæti deildarinnar.

Grindavík vann góðan sigur í dag.Knattspyrnudeild UMFG/Petra Rós

Njarðvík heldur áfram að gera góða hluti undir stjórn Gunnars Heiðars Þorvaldssonar. Liðið vann í kvöld sinn fjórða leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Selfossi á útivelli. Njarðvík komst í 3-0 í fyrri hálfleik eftir mark Oumar Diouck og tvö mörk frá Rafael Victor.

Gonzalo Zamorano og Oskar Wasliewski minnkuðu muninn fyrir Selfoss í seinni hálfleik en það dugði ekki til. Njarðvík fer með sigrinum upp fyrir Þróttara og úr fallsæti Lengjudeildarinnar. 

Fjórði leikur toppliðsins án sigurs

Á Akureyri vann Þór mikilvægan 2-1 sigur á Þrótti. Hinrik Harðarson kom Þrótti yfir á 7. mínútu en Aron Birkir Stefánsson varði síðan víti Hinriks á 24. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Alexander Már Þorláksson metin fyrir Þór og staðan í hálfleik 1-1.

Á lokamínútu leiksins skoraði síðan Ragnar Óli Ragnarsson sigurmark Þórsara og tryggði þeim sætan sigur. Eftir tapið í kvöld og sigur Njarðvíkur er Þróttur í fallsæti en Þór komið upp í 6. sæti og er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Topplið Aftureldingar hefur verið að tapa stigum að undanförnu eftir magnaða byrjun í deildinni. Í kvöld voru Mosfellingar mættir vestur á Ísafjörð og lentu heldur betur í vandræðum. Vestri leiddi 2-0 í hálfleik eftir mörk Silas Songani og Vladimir Tufegdzig.

Í síðari hálfleik bitu leikmenn Aftureldingar í skjaldarrendur. Ivo Braz og Elmar Kári Enesson Cogic skoruðu þá tvö mörk fyrir gestina og tryggðu Aftureldingu 2-2 jafntefli. Afturelding er enn á toppi Lengjudeildarinnar en eru nú aðeins einu stigi á undan ÍA. Liðið hefur ekki unnið leik síðan liðið vann 9-0 sigur á Selfyssingum þann 21. júlí.

Skagamenn eru á hraðri uppleið og unnu öruggan 4-0 sigur á heimavelli gegn botnliði Ægis. Tvö mörk frá Viktori Jónssyni og mörk frá Hlyni Sævari Jónssyni og Ármanni Inga Finnbogasyni í síðari hálfleik tryggðu Skagamönnum öruggan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×