Fótbolti

„Köstuðum þessu frá okkur“

Dagur Lárusson skrifar
Hermann á hliðarlínunni fyrr í sumar
Hermann á hliðarlínunni fyrr í sumar Vísir/Anton Brink

Eyjamenn misstu einbeitinguna og forskotið sem þeir byggðu upp gegn FH í fyrri hálfleik þegar liðið tapaði 2-1 gegn FH í Bestu deild karla í dag. Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV var svekktur í leikslok.

„Þetta er auðvitað gríðarlega svekkjandi eftir fyrri hálfleikinn þar sem mér fannst við vera sterkir varnarlega. Við náðum að halda þeim alveg í skefjum í fyrri hálfleiknum, vorum með mikla einbeitingu og góðar varnarfærslur og þess vegna var það gríðarlega svekkjandi að kasta því frá okkur á aðeins nokkrum mínútum þarna í seinni,“ - byrjaði Hermann á að segja í viðtali við blaðamann eftir leik.

Hermann vildi meina að liðið hans hafi átt skilið jafntefli úr þessum leik.

„Já eflaust, eða ég veit ekki. Þeir auðvitað skora tvö og við eitt og það er aldrei spurt um það hvað er sanngjarnt í þessu. En við náðum að pressa vel á þá þarna undir lokin og eflaust áttum við skilið eitt stig úr þessum leik.“

Hermann var þó jákvæður að vanda og sá margt jákvætt í leik sinna manna.

„Ég var að tala við strákana og við tökum mikið jákvætt úr þessum leik og þar á meðal varnarleikinn í fyrri hálfleikinn. Ef það hefði ekki verið fyrir þennan kafla í seinni þá værum við eflaust að tala hérna um sigur.“ - sagði Hermann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×