Fótbolti

Kane búinn að ná samkomulagi við Bayern

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane er að öllum líkindum á leið til Bayern München.
Harry Kane er að öllum líkindum á leið til Bayern München. Vince Mignott/MB Media/Getty Images

Enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane, leikmaður Tottenham Hotspur, er sagður vera búinn að ná samkomulagi við þýska stórveldið Bayern München.

Fyrr í dag bárust fréttir af því að Tottenham hefði samþykkt tæplega hundrað milljón punda tilboð í leikmanninn. Kane á ár eftir af samningi sínum við Tottenham og því hafa sögusagnir um brottför hans frá félaginu verið háværar í allt sumar.

Eftir þessar fréttir fóru þó að heyrast orðrómar um það að Kane sjálfur ætlaði sér ekkert endilega að samþykkja boð Bayern. Heimildarmenn Sky Sports sögðu frá því að þessi markahæsti leikmaður Tottenham frá upphafi væri farinn að hallast að því að vera um kyrrt, í það minnsta út samninstímann.

Nú greinir David Ornstein hjá The Athletic hins vegar frá því að Kane sé búinn að samþykkja boð þýsku meistaranna. Hann muni skrifa undir fjögurra ára samning við félagið og bíður nú eftir því að fá grænt ljós frá Tottenham um að mega ferðast til Þýskalands og gangast undir læknisskoðun.

Harry Kane er sem áður segir markahæsti leikmaður Tottenham frá upphafi. Hann hefur skorað 280 mörk fyrir félagið í 435 leikjum í öllum keppnum. Þá er hann einnig næst markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 213 mörk og markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi með 58 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×