Erlent

UNESCO vill banna farsíma alfarið í skólum

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Getty Images

UNESCO, Menningarmálstofnun Sameinuðu þjóðanna, vill að snjallsímar verði alfarið bannaðir í grunnskólum. Eitt af hverju fjórum ríkjum heims bannar nú þegar notkun símanna.

Segja snjallsíma trufla kennslu

Í nýrri menntamálaskýrslu UNESCO er fullyrt að snjallsímar trufli kennslu og bann við notkun þeirra í tímum myndi bæta getu og einbeitingu nemenda og draga úr einelti.

Fullyrt er að mikil notkun snjallsíma á skólatíma dragi úr námsárangri og hafi sömuleiðis neikvæð áhrif á tilfinningalegt jafnvægi barna.

UNESCO varar skólastjórnendur og stjórnmálamenn við því að fagna hugsunarlaust allri nýrri tækni, hún komi aldrei í stað beinnar kennslu og leiðsagnar kennarans.

Fáar vísbendingar um að símar bæti gæði kennslu

UNESCO segir fáar vísbendingar um að stafræn tækni bæti gæði kennslu eða menntunar, reyndar væri það svo að þær fáu skýrslur sem fullyrtu slíkt væru oftast fjármagnaðar af fyrirtækjum sem seldu stafrænar lausnir.

Í skýrslunni segir að fjórðungur ríkja í heiminum hafi nú bannað notkun snjallsíma í kennslustundum, ýmist í gegnum lagasetningu eða skólareglur. Þar á meðal má nefna Frakkland og Holland, en þar tekur bannið gildi um næstu áramót.

Unglingar sækja í einfaldari síma

Það er alls ekki óhugsandi að börnin sjálf myndu fagna þessu banni, en samkvæmt nýlegum fréttum danska ríkisútvarpsins virðist sem unglingar sæki í auknum mæli eftir því að kaupa farsíma sem einungis er hægt að nota til símtala og sms-sendinga.

Christian Mogensen, sem er sérfræðingur í stafrænum miðlum, segir í samtali við Danmarks Radio að ungt fólk sé æ gagnrýnna á hina stafrænu snjallsíma sem safni upplýsingum um neytendur og selji þær áfram til alls kyns fyrirtækja. Snjallsímarnir trufli líka daglega tilveru ungs fólks meira en góðu hófi gegnir og séu hreinlega streituvaldandi.

Aukin eftirspurn unga fólksins eftir gamaldags farsímum endurspegli þessa auknu gagnrýni í opinberri umræðu á varðveislu einkalífsins og innrás snjallsímanna inn í einkalíf unga fólksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×