Innlent

Vonast til að geta skemmt sér eitt­hvað líka

Eiður Þór Árnason skrifar
Þorsteinn Matthías Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Þorsteinn Matthías Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi. Vísir

Að venju leggja fjölmargir Íslendingar land undir fót þessa stærstu ferðahelgi ársins og hefur umferð í gegnum Selfoss borið þess merki. Töluverður fjöldi ökumanna fór yfir Ölfusárbrú á sjöunda tímanum í kvöld og hefur umferðin þar almennt gengið vel í dag.

Þorsteinn Matthías Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir umferðina hafa farið rólega af stað en sé smá saman að þyngjast og komi í skorpum yfir Ölfusárbrú. Ekki hafi komið upp nein umferðaróhöpp og hann voni að svo verði áfram.  

Þorsteinn hvetur fólk sem ætlar austur fyrir Selfoss að fara frekar Þrengslin og sleppa því að fara í gegnum bæinn. 

„Það myndi létta á brúnni talsvert. Annars geta myndast tappar hérna og langar raðir. Þannig að ég mæli með því að þeir sem eru að fara austur fyrir þeir fari neðri leiðina,“ sagði Þorsteinn í kvöldfréttum Stöðvar 2 og bætir við að fólk sé farið að velja sér þessa leið í meira mæli en áður. 

En hvaða skilaboð hefur hann til ökumanna um þessa umferðarþungu helgi?  

„Taka sér góðan tíma í ferðalög og hafa gott bil milli bíla, forðast óþarfa framúrakstra og svo náttúrulega líka áfengi og önnur vímuefni, þau eiga ekki saman í akstri, þannig að menn hafi það í huga.“

Þorsteinn bætir við að lögreglan verði með mjög öflugt umferðareftirlit á Suðurlandi alla helgina. Sjálfur verður hann á vaktinni en vonast til að fá tækifæri til að skemmta sér eitthvað líka og njóta þess sem verslunarmannahelgin hafi upp á að bjóða.

„Þetta verður góð helgi, ég vona það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×