Innlent

Meintur öryggis­brestur í Ís­lendinga­bók reyndist ekki á rökum reistur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þóra segir ættfræðiþyrsta Íslendinga nú geta tekið gleði sína á ný.
Þóra segir ættfræðiþyrsta Íslendinga nú geta tekið gleði sína á ný. Vísir/Vilhelm

Íslendingabók var lokað í rúman sólarhring eftir að ábending barst til Íslenskrar erfðagreiningar um meintan öryggis­brest. Vefurinn hefur nú verið opnaður aftur eftir að ljóst var að öllu væri óhætt.

Þóra Kristín Ás­geirs­dóttir, sam­skipta­full­trúi Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir í sam­tali við Vísi að öllum slíkum á­bendingum sé tekið al­var­lega, enda sé rekstur ætt­fræði­grunnsins Ís­lendinga­bókar háður ströngum skil­yrðum.

Gengið var úr skugga um að allt væri í lagi og opnaði vefurinn aftur í gær­kvöldi. Þóra vill ekki svara því nánar um hvernig öryggis­brest hafi borist ábending um.

Heimildin greindi fyrst frá málinu í gær og hafði miðillinn eftir Þóru að lokunin gæti varað fram á mánu­dag. Þóra segir að fyrir­tækið leggi upp með að kanna til hlýtar allt sem við­kemur Ís­lendinga­bók, enda sé um einn vin­sælasta vef landsins að ræða.

Á endanum hafi lokunin varað í sólar­hring. Margir urðu varir við lokunina að sögn Þóru, enda ljóst að stór hópur fólks noti Ís­lendinga­bókina dag­lega, þar á meðal eldri Ís­lendingar. Ljóst er að nú geta þeir tekið gleði sína á ný.

Tæknimenn í sumarfríi

Rætt var við Friðrik Skúlason, tölvuöryggissérfræðing hjá Íslenskri erfðagreiningu,  í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær um lokun Íslendingabókar. Hann sagði aðal vandamálið við meintan öryggisbrest vera þann að tæknimenn væru í sumarfríi.

„Það er lágmarksfjöldi starfsfólks sem vinnur að þessu og lágmarksþekking,“ segir Friðrik. Hann segir meintan öryggisbrest vera flókið mál.

„Það þarf að leysa þetta og tryggja að þetta komi ekki aftur upp. Ég býst við að setja eitthvað á vefinn þegar þetta verður leyst.“

Hann segir helming þjóðarinnar hafa heimsótt vefinn. Þó nokkuð margar þúsundir heimsæki vefinn daglega og ljóst að hann sé á meðal vinsælustu vefsíðna landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×