Fótbolti

PSG samþykkir tilboð Al Hilal í Mbappé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gæti Mbappé farið til Sádi-Arabíu eftir allt saman?
Gæti Mbappé farið til Sádi-Arabíu eftir allt saman? EPA-EFE/MOHAMMED BADRA

Samningsmál franska framherjan Kylian Mbappé eru áfram í brennidepli. Hann vill vera áfram hjá París Saint-Germain og fara frítt næsta sumar en félagið vill selja hann í sumar. Al Hilal frá Sádi-Arabíu hefur nú boðið 300 milljónir evra í leikmanninn (44 milljarðar íslenskra króna). Samkvæmt nýjustu fréttum hefur PSG samþykkt tilboðið.

Hinn 24 ára gamli Mbappé hefur verið mikill fréttamatur í sumar enda rennur samningur hans út sumarið 2024 og talið er næsta öruggt að hann muni þá ganga í raðir Real Madríd á frjálsri sölu.

Forráðamenn PSG hafa hins vegar lýst því yfir að leikmaðurinn muni ekki fara frítt og skrifi annað hvort undir nýjan samning eða verði seldur í sumar. Það virðist þó sem Mbappé sé tilbúinn að ögra forráðamönnum félagsins og jafnvel sitja á bekknum allt næsta tímabil til að komast til Real sumarið 2024.

Á laugardaginn barst hins vegar formlegt tilboð í Mbappé frá Al Hilal sem er hluti af hinum nýríku liðum í Sádi-Arabíu. Tilboðið barst í formlegu bréfi sem sent var frá Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu. Tilboðið hljóðar upp á 300 milljónir evra (259 milljónir punda, 44 milljarða íslenskra króna). Myndi það gera Mbappé að dýrasta leikmanni sögunnar.

Á Sky Sports kemur fram að Al Hilal hafi ekki enn sett sig í samband við leikmanninn sjálfan. Hvort hann sé tilbúinn að fara til Sádi Arabíu, til styttri eða lengri tíma, er óvíst en tilboðið er engu að síður formlegt og PSG væri án efa til í 300 milljónir evra fyrir leikmann sem gæti farið frítt á næstu leiktíð. Samkvæmt nýjustu fréttum hefur PSG samþykkt tilboðið.

Samkvæmt James Benge hjá CBS Sports er samningurinn aðeins til eins árs og  myndi Mbappé fá 700 milljónir evra (tæplega 103 milljarða íslenskra króna) í eigin vasa.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×