Fótbolti

Met­fjöldi sá Matildurnar byrja á sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurmarki dagsins fagnað.
Sigurmarki dagsins fagnað. Robert Cianflone/Getty Images

Ástralía lagði Írland með einu marki gegn engu í fyrsta leik liðanna á HM kvenna í knattspyrnu. Aldrei hafa fleiri komið saman til að horfa á kvennaknattspyrnu í Ástralíu.

Ástralía - eða Matildurnar eins og liðið er kallað - mætti til leiks á HM án sinnar helstu stjörnu. Hin magnaða Sam Kerr, leikmaður Englandsmeistara Chelsea, er fjarri góðu gamni og missir af fyrstu tveimur leikjum Ástralíu á mótinu. Það kom þó ekki að sök þegar kom að mætingu á leik dagsins.

Hvað leik dagsins varðar þá var Ástralía mun meira með boltann framan af en írska liðið varðist fimlega. Í upphafi síðari hálfleiks fengu heimakonur vítaspyrnur þegar Hayley Raso, leikmaður Manchester City, var rifin niður í teignum.

Stephanie Catley, leikmaður Arsenal, steig á punktinn og skoraði af gríðarlegu öryggi. Staðan orðin 1-0 og brekkan brött fyrir Írana það sem eftir lifði leiks. Ástralía sótti án afláts en tókst ekki að finna glufur á annars góðri vörn Írlands. 

Það verður seint sagt að Írland hafi verið líklegt til að jafna metin en undir lok leiks fengu gestirnir aukaspyrnu á ákjósanlegum stað. Hún fór rétt yfir eftir að fara í varnarvegg heimaliðsins. Hornspyrnan sem fylgdi í kjölfarið flaug inn að marki og þurfti Mackenzie Arnold, markvörður Ástralíu og West Ham United, að blaka boltanum í horn. 

Ekkert kom þó upp úr því og lauk leiknum með 1-0 sigri Ástralíu á ANZ-vellinum í Sidney. Mætingin var til fyrirmyndar en alls mættu 75.784 manns á leikinn.

Ástralía fer með sigrinum á topp B-riðils en Írland á botninn. Kanada og Nígería eru einnig í B-riðli en þau mætast klukkan 02.30 á morgun.


Tengdar fréttir

Stjörnukonan tók þátt í sögulegum sigri í opnunarleik HM

Nýja Sjáland byrjaði heimsmeistaramótið á heimavelli frábærlega eða með því að vinna 1-0 sigur á Noregi í opnunarleik HM kvenna í fótbolta í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Þetta var fyrsti sigur Nýja-Sjálands í sögu HM kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×