Erlent

Ala­bama hefur af­tökur að nýju þrátt fyrir að hafa klúðrað þremur í fyrra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Barber segist ekki óttast dauðann en hann sé hræddur við aðferðina sem yfirvöld hyggjast nota til að taka hann af lífi.
Barber segist ekki óttast dauðann en hann sé hræddur við aðferðina sem yfirvöld hyggjast nota til að taka hann af lífi.

Yfirvöld í Alabama í Bandaríkjunum hyggjast hefja aftökur á ný eftir að hafa klúðrað einni og þurft að hætta við tvær í fyrra. James Barber, 54 ára, verður tekinn af lífi með lyfjablöndu á föstudagsmorgun, þrátt fyrir mótmæli dóttur konunnar sem hann myrti.

Barber sló hina 75 ára Dorothy „Dottie“ Epps ítrekað með hamri árið 2021, undir áhrifum kókaíns, verkjalyfja og áfengis. Hann var áður í sambandi með dóttur Epps, sem segist hafa fyrirgefið honum.

„Ég er þreytt Jimmy,“ sagði Sarah Gregory í opnu bréfi til Barber. „Ég er þreytt. Ég er þreytt á því að þurfa að bera þennan sársauka, hatur og reiði í hjartanu. Ég get þetta ekki lengur. Ég verð að gera þetta og fyrirgefa þér í alvöru.“

Yfirvöld í Alabama hyggjast engu að síður taka Barber af lífi, þrátt fyrir að hafa þurft að falla frá tveimur aftökum í fyrra og að sú þriðja hafi tekið þrjár og hálfa klukkustund.

Ýmis baráttusamtök og aðgerðasinnar hafa harðlega mótmælt ákvörðun yfirvalda. Þau segja að notkun lyfja við aftökur eigi að gefa þeim læknisfræðilegt yfirbragð en lyfin hafi alls ekki verið þróuð með aftökur í huga og ítrekað farið úrskeðis.

Þrátt fyrir þetta hafi dómstólar ekki viljað taka undir það að um sé að ræða „grimmilega og óvenjulega“ refsingu, sem séu bannaðar samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Þá hafa samtökin gagnrýnt rannsókn sem efnt var til í eftir aftökurnar í fyrra en var ekki framkvæmd af óháðum aðila. Yfirvöld segja þrjár breytingar hafa verið gerðar í kjölfarið en tvær vörðuðu starfsmannamál, það er að segja að þeim sem stóðu að aftökunum í fyrra var skipt út fyrir aðra.

Þriðja fólst í því að gefa ríkinu sex tíma til viðbótar til að ljúka aftökunni, til að aflétta „óþarfa þrýstingi sökum tíma“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×