Innlent

Þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga þá­verandi eigin­konu í sumar­bú­stað

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Dómari sýknaði í einum ákærulið en sakfelldi í tveimur.
Dómari sýknaði í einum ákærulið en sakfelldi í tveimur. Vísir/Vilhelm

Maður var í dag dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar fyrir nauðganir og stórfelld brot í nánu sambandi. Brotin voru framin gegn fyrrverandi eiginkonu hans í sumarbústað.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness í dag og voru ákæruliðirnir þrír.

Í fyrsta lagi að hann hafi haft samræði og endaþarmsmök við þáverandi eiginkonu sína án samþykkis en hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar. Hlaut hún áverka og punktablæðingar við bæði sköp og endaþarm.

Í öðru lagi að hann hafi beitt aflsmunum sínum ítrekað til að hafa samræði við hana í sumarbústað. Segir í dómnum að „…þrátt fyrir að hún reyndi að ýta ákærða frá sér og bæði hann um að hætta, en ákærði hafði samræði við hana í sófa í stofunni og stuttu síðar aftur inn í svefnherbergi og er ákærði hætti í stutta stund náði A að flýja inn í eldhús en ákærði elti hana og hélt aftur á henni inn í svefnherbergi þar sem hann hélt áfram að hafa við hana samræði, allt með þeim afleiðingum að A hlaut eymsli á hálsi og herðum og mar á ytri kynfærum.“

Í þriðja lagi að með þessari háttsemi hafi hann skapað viðvarandi ógnarástand í sambandinu sem olli henni andlegum þjáningum, kúgun og vanmætti sem kæmu niður á heilsu hennar.

Afmælisdagurinn

Eiginkonan lagði fram kæru þann 22. desember á lögreglustöðinni við Hverfisgötu og lýsti atburðarásinni frá sinni hlið.

Hið fyrst nefnda tilfelli hafi gerst á afmælisdegi konunnar. Fóru þau saman í bæinn og hún drakk þar til hún var mjög ölvuð.

„Þegar heim var komið hafi brotaþoli farið í sturtu en kvaðst lítið annað muna fyrr en hún vaknar daginn eftir og finnur fyrir óþægindum í endaþarmi. Hafi ákærði þá verið „sturlaður“ af reiði vegna ummæla sem brotaþoli átti að hafa viðhaft um hann um nóttina. Hafi ákærði meðal annars brotið vegg á heimili hennar,“ segir í dóminum.

Fékk hún vinkonur til að skutla sér á Bjarkarhlíð og þaðan í kvennaathvarfið ásamt börnum sínum. Tveimur dögum síðar leitaði hún á bráðamóttökuna.

Þrjár nauðganir í sumarbústað

Tilfellin í sumarbústaðnum gerðust þegar þau voru þar í vikulangri fjölskylduferð með börnunum. Eftir atlot í heitum potti og í sófa skipti maðurinn skyndilega skapi, snöggreiddist og nauðgaði henni um leggöng.

Konan leitaði á bráðamóttöku eftir brotin.

„Lýsti brotaþoli því að hún hafi legið þannig á sófanum að rass hennar hafi verið á sófabrúninni en höfuð hennar kramið, eða í nokkurs konar vinkli, við sófabakið. Hafi hún af þeim sökum átt erfitt með að anda á meðan á þessu hafi staðið,“ segir í dóminum.

Hafði hanni í kjölfarið sáðlát á gólfið. Gekk svo inn í herbergið þar sem sonurinn lá og færði yfir í herbergi dótturinnar. Fór svo upp í rúm til konunnar og reyndi að halda áfram en hún greip í geirvörtu hans til að stöðva hann. Nauðgaði hann henni þá aftur.

Fór hún þá fram í eldhús þangað sem maðurinn kom og nauðgaði henni í þriðja skiptið. Þegar maðurinn ætlaði að nauðga henni í fjórða skiptið um nóttina sagði hún við hann að hann gerði móður sína ekki stolta með þessu og þá var eins og hann hafi áttað sig á aðstæðunum. Hætti hann þá ofbeldinu og konan lagðist til svefns. Um morguninn leitaði konan til Kvennaathvarfsins og á neyðarmóttöku.

Sakfelldur i tveimur ákæruliðum

Maðurinn neitaði sök og sagði þau hafa átt venjulegt kynlíf saman í bæði þessi skipti. Hann hafi verið góður eiginmaður og faðir í átta ára sambandi með konunni. Hann hafi ekki fengið að sjá börnin sín í þrjú ár og hafi verið sagt upp í vinnunni vegna þessa máls.

Vitni, meðal annars hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku og sálfræðingur, vitnuðu til um að frásögn konunnar væri skýr. Þá lágu einnig fyrir skýrslur og vottorð, meðal annars frá Kvennaathvarfinu og lækni.

Var maðurinn sýknaður af fyrsta ákæruliðnum en sakfelldur fyrir seinni tvo.

Eins og áður segir er maðurinn dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar. Þá þarf hann að greiða brotaþola 1,5 milljón krónur í bætur og rúmlega 3 milljónir í lögfræði og málskostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×