Innlent

Frum­varp um refsi­á­byrgð heil­brigðis­starfs­fólks þurfi að taka fyrir í haust

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir Alþingi þurfa að taka fyrir frumvarp heilbrigðisráðherra um refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks í haust. 
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir Alþingi þurfa að taka fyrir frumvarp heilbrigðisráðherra um refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks í haust.  Vísir/Sigurjón

Formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segist ekki skilja ákvörðun ríkissaksóknara um að áfrýja sýknudómi hjúkrunarfræðings á Landspítalanum. Ábyrgðin liggi nú hjá heilbrigðisráðherra sem hafi margoft lofað frumvarpi um refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks.

Ríkissaksóknari hefur áfrýjað sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir hjúkrunarfræðingi á Landspítalanum sem var ákærð fyrir að hafa valdið dauða sjúklings á geðdeild spítalans fyrir tveimur árum. Hjúkrunarfræðingurinn var sýknuð í málinu þar sem dómurinn taldi ósannað að hún hefði haft ásetning til að svipta sjúklinginn lífi. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir ákvörðun ríkissaksóknara óskiljanlega.

„Það er búið að sýkna í þessu máli. Niðurstaðan er komin. Í rauninni finnst mér boltinn vera núna hjá ráðherra sem margoft hefur lofað að koma fram með frumvarp um refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks sem ég hef oft minnst á áður,“ segir Guðbjörg. Ábyrgð heilbrigðisstofnana sé mikil, þar á meðal Landspítala. „Og náttúrulega full þörf á þessi heilbrigðisstofnun eins og stjórnvöld fari í naflaskoðun til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig en ég sé enga ástæðu til að halda áfram með þetta mál,“ segir hún jafnframt.

Ljóst sé að heilbrigðiskerfið sé undir mannað og að mál hjúkrunarfræðingsins nái til alls heilbrigðisstarfsfólks. „Það er mjög mikill uggur, þetta er ekki fyrsta málið sem hefur komið upp og enn erum við að standa frammi fyrir þessu. Hvað er það sem á að fá þau til að mæta á undir mannaða vakt eða standa eftir undir mannaðri vakt með alla þessa ábyrgð og ábyrgðin virðist vera engin hjá heilbrigðisstofnunum,“ segir Guðbjörg og að því þurfi að breyta. 

„Við munum halda áfram að horfa upp á áframhaldandi skort á hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki ef ekki verði brugðist mjög snögg við og þetta frumvarp tekið fyrir á Alþingi í haust.“


Tengdar fréttir

Segja konu sem lést á geð­deild hafa verið beitta of­beldi

Nýlegur sýknudómur yfir hjúkrunarfræðingi vegna dauða sjúklings á geðdeild Landspítalans er dæmi um að fólk sé beitt ofbeldi á sjúkrahúsum og stofnunum, að sögn forsvarsmanna Geðhjálpar. Þeir gagnýna að enginn axli ábyrgð á andlátinu og því sem miður fer í heilbrigðiskerfinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×