Erlent

Leikarar í Hollywood komnir í verkfall

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Formaður stéttarfélagsins Fran Drescher á blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um verkfallið.
Formaður stéttarfélagsins Fran Drescher á blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um verkfallið. getty

Stjórn stéttarfélags leikara í Hollywood (SAG) samþykkti í kvöld að leggja niður störf á miðnætti. Verkfallið nær til um 160 þúsund leikara sem hafa undanfarið reynt að ná nýjum samningi, fyrir leikara í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, í höfn.

Samningaviðræður við framleiðendur hafa staðið yfir undanfarnar vikur og fór stéttarfélag leikara fram á hækkun launa, bætta vinnuaðstæður og ákvæði um bann við notkun gervigreindar. Samninga­nefnd fé­lagsins hefur í rúman mánuð rætt við sam­tök kvik­mynda-og sjón­varps­fram­leið­enda vestan­hafs sem sjá um launa­samninga fyrir hönd stærstu stúdíóanna og streymis­veitna líkt og Amazon, App­le, Dis­n­ey, NBCUni­ver­sal, Net­flix, Paramount, Sony og Warner Bros. Discovery.

Í gær sigldu þær viðræður í strand og var kosið um verkfallið í kvöld.

„Við erum fórnarlömbin hér,“ er haft eftir formanni stéttarfélagsins Fran Drescher í frétt LA Times um málið. „Fórnarlömb í mjög gráðugum bransa. Ég er hneyksluð yfir því hvernig fólkið sem við höfum átt í viðskiptum við kemur fram við okkur. Það er ógeðslegt, skammist ykkar. Þeir standa röngum megin í sögunni á þessari stundu.“

Um er að ræða fyrsta verkfall leikara í 63 ár. Á meðan verkfallinu stendur mega leikarar ekki sækja frumsýningar eða verðlaunahátíðir. Líkur eru því á að Emmy verð­launum, sem eiga að fara fram í september, verði frestað fram á vetur.

Handritshöfundar hafa sömuleiðis staðið í ströngu í kjarabaráttu sinni í Hollywood og hófu verkfallsaðgerðir 2. maí síðastliðinn. 

Í kvöld gengu leikararnir Matt Damon, Emily Blunt, Cillian Murphy og Florence Pugh út af frumsýningu stórmyndarinnar Oppenheimer í Bretlandi. Leikstjóri myndarinnar Christopher Nolan tilkynnti sýningargestum að verkfall væri hafið og því væru leikararnir ekki viðstaddir:


Tengdar fréttir

Hand­rits­höfundar í Hollywood leggja niður störf

Á tólfta þúsund handritshöfunda í sjónvarps- og kvikmyndagerð í Bandaríkjunum hefja verkfall til að krefjast kjarabót í dag. Verkfallið gæti lamað framleiðslu kvikmyndavera og sjónvarpsframleiðenda.

Stefnir í verk­fall Hollywood leikara

Verka­lýðs­fé­lag Hollywood leikara hefur lagt til að gripið verði til verk­falls­að­gerða eftir að samnings­frestur rann út á mið­nætti. Ef af verður, verður það í fyrsta sinn sem leikarar og hand­rits­höfundar í Hollywood verða í verk­falli á sama tíma í sex­tíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×