Innlent

Nóró­veirur grassera í skemmti­ferða­skipunum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Þrettán faraldrar hafa komið upp á árinu.
Þrettán faraldrar hafa komið upp á árinu. Vísir/Vilhelm

Skæðir nóróveirufaraldrar hafa ítrekað komið upp á skemmtiferðaskipum í ár. Nú síðast í skipi sem sigldi frá Íslandi til New York.

Samkvæmt bandarísku sóttvarnarstofnuninni (CDC) hafa komið upp þrettán nóróveirufaraldrar á skemmtiferðaskipum í ár. Þetta er það mesta síðan árið 2012.

Síðasti faraldurinn kom upp á skipi Viking Cruises sem sigldi frá Íslandi til New York borgar þann 20. júní. Um þrettán prósent farþega sýktust af veirunni og nokkuð margir starfsmenn skipsins.

Forsvarsmenn CDC segjast ekki hafa vitneskju um hvers vegna þessir faraldrar séu sífellt að koma upp núna. En líklegt er talið að gríðarleg fjölgun farþega spili þar inn í. Í nokkur ár þar á undan hafði tilfellum nóróveiru fækkað.

Uppköst og niðurgangur

Nóróveiran er afar smitandi veira sem veldur bólgum í maga og þörmum. Einkennin lýsa sér einna helst í heiftúðlegri magakveisu, ógleði, uppköstum og niðurgangi. Flestir ná sér að fullu án læknishjálpar.

Til að komast hjá sýkingu er mælt með því að fólk þvoi á sér hendurnar með sápu og heitu vatni.

Árið 2015 kom upp skætt tilfelli nóróveiru í hollenska skemmtiferðaskipinu Ryndham sem lá við Reykjavíkurhöfn. Um hundrað manns veiktust og þurfti að kalla til hreinsunarteymi um borð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×