Þetta kemur fram í gögnum frá dómsyfirvöldum í Brasilíu sem Vísir hefur undir höndum.
Samkvæmt téðum gögnum var máli Sverris vísað áfram til ríkissaksóknara þann 9.maí síðastliðinn.
Þann 13.maí síðastliðinn staðfesti dómari móttöku og fyrirskipaði réttarhöld þann 14.júní. Þeim réttarhöldum var síðan frestað til 3.júlí.
Sverrir Þór var handtekinn í Ríó de Janeiro þann 12. apríl síðastliðinn í umfangsmiklum aðgerðum brasilísku lögreglunnar í samvinnu við meðal annars íslensku lögregluna.
Grunaður um að vera einn af leiðtogum
Í tilkynningu brasilísku alríkislögreglunnar kom fram að um væri að ræða umfangsmiklar aðgerðir sem sneru að því glæpasamtök sem hafa sérhæft sig í peningaþvætti og fíkniefnaviðskiptum.
Um 250 lögreglumenn komu að aðgerðunum þar sem ráðist var í 49 húsleitir og 33 voru handteknir. Aðgerðirnar náðu til tíu borga í Brasilíu. Þá voru bankareikningar 43 einstaklinga frystir og lagt hald á 57 húseignir auk bifreiða og báta. Andvirði hinna haldlögnu eigna er talið nema um 150 milljón brasilískum dollurum eða um fjórum milljörðum króna.
Sverrir Þór er grunaður um að vera einn af leiðtogum glæpasamtaka sem hafa sérhæft sig í peningaþvætti og fíkniefnaviðskiptum og eru grunuð um að stunda víðtæka brotastarfsemi i Brasilíu. Haft er eftir brasilísku alríkislögreglunni að upplýsingar úr flugskýli á flugvelli í Porto Belo hafi komið þeim á spor Sverris.
Að sögn brasilísku lögreglunnar er glæpahópnum skipt upp í tvær stórar einingar en með útibú í fjölmörgum borgum í Brasilíu. Sérstaklega í Sao Paulo, Ríó de Janeiro og Ríó Grande do Norte.