Erlent

Þrjú börn meðal látinna eftir árás á leik­skóla í Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kínverjar hafa mátt þola ótal árásir í skólum síðasta áratug.
Kínverjar hafa mátt þola ótal árásir í skólum síðasta áratug. Getty

Sex eru látnir eftir árás á leikskóla í borginni Lianjiang í Guangdong-héraði í Kína. Meðal látnu eru þrjú börn, tveir foreldrar og einn kennari.

Lögregla hefur handtekið 25 ára mann í tengslum við árásina.

Fréttir af harmleiknum og myndskeið frá vettvangi hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Árásir á skólabörn hafa verið viðvarandi vandamál í Kína og valdið mikilli reiði. 

Yfirleitt er um að ræða árásir þar sem eggvopnum er beitt eða heimatilbúnum sprengjum, þar sem skotvopnalöggjöfin er afar ströng. Samkvæmt BBC hafa að minnsta kosti 50 hnífaárásir átt sér stað í skólum Kína frá 2010.

Í ágúst í fyrra myrti maður vopnaður hníf þrjá á leikskóla í Jiangxi-héraði og særði sex. Í apríl 2021 létust tveir og sextán særðust í árás í borginni Beiliu í Guangxi Zhuang. Þá særðust fjórtán börn í árás á leikskóla í Chongqing í október 2018.

Í einu tilviki notaði árásarmaður efni í spreybrúsa og særði 50 börn.

Samkvæmt BBC eru árásarmennirnir oftast karlmenn sem telja sig eiga eitthvað sökótt við samfélagið. Ástæður árásanna hafa meðal annars verið raktar til streitu og krafa á unga karlmenn í Kína, atvinnuleysis og aukins ójöfnuðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×