Erlent

Ók um á vespu og skaut fólk af handahófi

Samúel Karl Ólason skrifar
IrenaOGÁsta
AP/Lögreglan í New York

Lögreglan í New York segist hafa handtekið mann sem ók um götur borgarinnar í gær á vespu og skaut á fólk af handahófi. Hann skaut einn 87 ára gamlan mann til bana og særði þrjá aðra.

Minnst eitt af fórnarlömbum árásarmannsins er sagt í alvarlegu ástandi en sá fékk skot í höfuðið.

Öryggismyndavélar fönguðu árásarmanninn en hann var handtekinn um tveimur tímum eftir fyrstu skotárásina og var það eftir að kennsl voru borin á hann út frá myndum sem sendar voru á alla lögregluþjóna borgarinnar.

Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur en er sagður vera 25 ára gamall.

Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir en lögreglan segir að maðurinn hafi líklega valið fórnarlömb sín af handahófi. Lögreglan segir hann hafa einu sinni áður verið handtekinn í New York.

Hér að neðan má sjá blaðamannafund sem haldinn var í New York í gær.

Fyrsta árásin átti sér stað um klukkan 11:10 í gærmorgun að staðartíma. Þá særðist 21 árs maður. Sautján mínútum síðar var maðurinn sem lést skotinn margsinnis og lést hann á sjúkrahúsi. Skömmu síðar skaut maðurinn á hóp fólks sem stóð á götuhorni en hann hæfði engan.

Því næst skaut hann 44 ára gamlan mann í höfuðið. Sá er á sjúkrahúsi í alvarlegu ástandi, eins og áður hefur komið fram. Einni mínútu eftir það skaut árásarmaðurinn 63 ára gamlan mann í búkinn. Sá er sagður í stöðugu ástandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×