Erlent

Í ströngustu öryggis­vist vegna skot­á­rásarinnar í Kaup­manna­höfn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þrír létust í árásinni í verslunarmiðstöðinni Fields.
Þrír létust í árásinni í verslunarmiðstöðinni Fields. Ólafur Steinar Gestsson/AP

Hinn 23 ára gamli karl­maður sem á­kærður var fyrir skot­á­rásina í verslunar­mið­stöðinni Fields í Kaup­manna­höfn í júlí á síðasta ári hefur verið dæmdur sekur fyrir þrjú mann­dráp og ellefu til­raunir til mann­dráps. Hann verður vistaður í öryggis­vistun sem er ætluð sér­stak­lega hættu­legum föngum, í ótakmarkaðan tíma.

Danska ríkis­út­varpið greinir frá en dómur yfir manninum var kveðinn upp eftir há­degi í dag. Maðurinn viður­kenndi sök fyrir dómi en bar fyrir sig að hann myndi ekki eftir á­rásinni og hefði því ekki verið með réttu ráði. Á­rásina innti hann að hendi síð­degis þann 3. júlí í fyrra.

Hin látnu voru sau­tján ára piltur, sau­tján ára stúlka og 46 ára karl­maður. Áður hefur verið sagt frá því að maðurinn hafi reynt að ná sam­bandi við hjálpar­línu skömmu fyrir á­rásina en ekki náð í gegn.

Verj­endur mannsins fóru fram á að hann yrði vistaður á hefð­bundna réttar­geð­deild en á­kærandi fór fram á að hann fengi vistun á Si­kringen stofnuninni, sem ætluð er sérsta­lega hættu­lega og and­lega veikum föngum.

Í um­fjöllun DR kemur fram að þar sé pláss fyrir þrjá­tíu fanga og að um sé að ræða mestu öryggis­vistun landsins. Vistunartími var ótilgreindur af héraðsdómi í Kaupmannahöfn og verður maðurinn því að öllum líkindum í vistun út ævina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×